Eigandi bresku apótekskeðjunnar Boots, Walgreens Boots Alliance, er nú í yfirtökuferli af hálfu bandaríska fjárfestingafyrirtækisins Sycamore Partners fyrir tíu milljarða dala en upphæðin er aðeins brot af virði fyrirtækisins fyrir tæpum áratug síðan.

Kaupverðið er sagt endurspegla þá erfiðleika sem félagið glímir við en Walgreens Boots Alliance er mjög skuldsett meðan það keppir við ódýrari lyfjavalkosti á netinu. Sycamore Partners mun þá borga 11,45 dali fyrir hvern hlut í félaginu.

Tim Wentworth, forstjóri Walgreens, segir að fyrirtækið sé að reyna að leysa áskoranir innan lyfjaiðnaðarins og að landslagið fyrir slík smásölufyrirtæki verði sífellt flóknara.

„Við erum að sjá miklar framfarir í metnaðarfullri viðsnúningsstefnu sem mun skila sér í verðmætasköpun á komandi misserum en það mun taka tíma að einbeita okkur að breytingum innan fyrirtækisins,“ segir Tim.

Rúmlega 1.900 Boots-verslanir eru eftir í Bretlandi en apótekskeðjan byrjaði að loka verslunum í júní 2023.

Hlutabréf Walgreens hækkuðu um tæp 6% í viðskiptum í New York eftir tilkynninguna en markaðsvirði félagsins hefur engu að síður lækkað um 80% á síðustu fimm árum. Þá er gert ráð fyrir að samningurinn verði fullkláraður í lok þessa árs.