Ernst & Young ehf. (EY) og Rögnvaldur Dofri Pétursson voru með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær sýknuð af tæplega 673 milljón króna bótakröfu þrotabús Sameinaðs sílikons hf. Niðurstaða héraðsdóms er áhugaverð fyrir þær sakir að samkvæmt henni var saknæmri háttsemi Rögnvaldar Dofra, sem var endurskoðandi félagsins, til að dreifa en orsakatengsl skorti á milli hennar og meints tjóns.
Sagt var frá aðalmeðferð málsins í Viðskiptablaðinu í upphafi mánaðar. Þar kom fram að þrotabúið rekti tjón sitt meðal annars til hlutafjárhækkana í félaginu sem voru færðar jafnharðan út af reikningum þess. Það hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum hjá góðum og gegnum endurskoðanda. Þá hafi samrunareikningur Stakksbrautar 9 ehf. og Sameinaðs sílikons hf. verið ófullnægjandi þar sem hann hefði ekki verið endurskoðaður.
- Sjá meira: Bókhaldsgögn fundust í skotti á bíl
Um tvær hlutafjárhækkanir var að ræða í málinu. Sú fyrri, 224 milljónir króna, var framkvæmd að hluta til með skuldbreytingu og að hluta með reiðufé en samkvæmt yfirlýsingu Dofra til fyrirtækjaskrár var hún greidd með reiðufé. Í dóminum var ekki fallist á að í þessu gæti fallist nokkurskonar saknæm háttsemi.
Snertilendingin hafði ekki áhrif
Hvað síðari hlutafjárhækkunina varðaði þá lá fyrir að fyrir þær var greitt í reiðufé og var það í samræmi við yfirlýsingu endurskoðandans til fyrirtækjaskrár. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi hafði Dofri sjálfur sagt að „samkvæmt lögunum þá ber sérfræðingi aðeins að staðfesta að greiðsla fyrir hlutaféð hafi farið fram, ekki að staðfesta hvort þeim verði varið skynsamlega. Ætlar félagið til að mynda að bjóða starfsmönnum til tunglsins? Það kemur mér ekkert við.“
Á þetta féllst dómurinn en þar sagði að hlutafjáraukningin hefði sannarlega skilað sér inn á reikning félagsins og sú staðreynd að þeir hefðu aðeins snertilendingu í bókum þess gæti ekki gefið tilefni að „kanna sérstaklega fyrir hvað væri greitt eða kanna eignarhald og starfsemi félagsins sem útgjöldin gengju til“.
- Sjá meira: Hringfært fé gegnum fjárfestingaleið?
Sem fyrr segir byggði þrotabúið á því í annan stað að áritun endurskoðandans á samrunareikning félaganna hafi verið röng en lögum samkvæmt skulu félagsstjórnir „annast að saminn sé endurskoðaður sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur“. Taldi þrotabúið að ranglega hefði verið staðið að því verki.
Áritunarvenja ekki í samræmi við lög
Í áritun endurskoðandans á samrunareikninginn sagði að hann byggði á „árshlutareikningum félaganna“ og að „drög að upphafsefnahagsreikningi […] [væru] í samræmi við samrunaefnahagsreikninginn“. Í framburði Dofra fyrir dómi kom fram að umræddur reikningur hefði ekki verið endurskoðaður en slíkt er lögskylt samkvæmt reglum félagaréttarins. Þá sagði hann enn fremur að fyrirtækjaskrá tæki slíkar áritanir góðar og gildar og jafnvel áritanir um að reikningur hefði ekki verið endurskoðaður.
„Sú venja sem Rögnvaldur Dofri lýsti fyrir dóminum að hefði skapast við áritun og gerð samrunaefnahagsreikninga er ekki í samræmi við fyrirmæli laga um endurskoðun,“ segir í dóminum. Þar er þess enn fremur getið að þótt félög kunni að vera endurskoðunarskyld þá sé þeim almennt ekki skylt að leggja fram endurskoðaða árshlutareikninga.
„Enda þótt umrædd lagaskylda til að saminn sé endurskoðaður reikningur hafi hvílt á stjórn [Sameinaðs sílikons], en ekki stefndu, þá mátti góður og gegn endurskoðandi gera sér grein fyrir þeim skyldum sem fælust í aðkomu hans að þeim reikningi lögum samkvæmt. Samrunareikningurinn átti samkvæmt afdráttarlausu orðalagi laganna að vera endurskoðaður,“ segir í dóminum. Orðalag áritunar eða meint venja, um hvað kemst í gegn hjá fyrirtækjaskrá, gæti engu breytt þar um.
- Sjá meira: Endurskoðandi með réttarstöðu sakbornings
Að mati dómsins var þar á ferð saknæm háttsemi „að taka með félagsstjórn þátt í því að ganga frá málum með þessum hætti“ en saknæmi er eitt af frumskilyrðum þess að til bótaskyldu geti stofnast. Þó taldi dómurinn, sem skipaður var sérfróðum meðdómanda, sem er löggiltur endurskoðandi, að jafnvel þótt samrunaefnahagsreikningurinn hefði verið endurskoðaður „þá hefði sú vinna ekki leitt annað í ljós varðandi fjárhag félaganna en það sem fram kemur í hinum áritaða óendurskoðaða reikningi.“
Sú yfirsjón, að senda frá sér óendurskoðaðan samrunaefnahagsreikning, hefði því í raun ekki haft nein áhrif á framvindu málsins og skorti því upp á það að orsakatengsl væru milli háttseminnar og hins meinta tjóns. Breytti engu í þeim efnum að aðgæsluskylda endurskoðenda, sem sérfræðinga og opinberra sýslunarmanna, væri rík.
Sökum þess voru EY og Rögnvaldur Dofri sýknuð af bótakröfu þrotabúsins. Þá var þrotabúinu gert að greiða tvær milljónir króna í málskostnað.
Ernst & Young ehf. (EY) og Rögnvaldur Dofri Pétursson voru með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær sýknuð af tæplega 673 milljón króna bótakröfu þrotabús Sameinaðs sílikons hf. Niðurstaða héraðsdóms er áhugaverð fyrir þær sakir að samkvæmt henni var saknæmri háttsemi Rögnvaldar Dofra, sem var endurskoðandi félagsins, til að dreifa en orsakatengsl skorti á milli hennar og meints tjóns.
Sagt var frá aðalmeðferð málsins í Viðskiptablaðinu í upphafi mánaðar. Þar kom fram að þrotabúið rekti tjón sitt meðal annars til hlutafjárhækkana í félaginu sem voru færðar jafnharðan út af reikningum þess. Það hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum hjá góðum og gegnum endurskoðanda. Þá hafi samrunareikningur Stakksbrautar 9 ehf. og Sameinaðs sílikons hf. verið ófullnægjandi þar sem hann hefði ekki verið endurskoðaður.
- Sjá meira: Bókhaldsgögn fundust í skotti á bíl
Um tvær hlutafjárhækkanir var að ræða í málinu. Sú fyrri, 224 milljónir króna, var framkvæmd að hluta til með skuldbreytingu og að hluta með reiðufé en samkvæmt yfirlýsingu Dofra til fyrirtækjaskrár var hún greidd með reiðufé. Í dóminum var ekki fallist á að í þessu gæti fallist nokkurskonar saknæm háttsemi.
Snertilendingin hafði ekki áhrif
Hvað síðari hlutafjárhækkunina varðaði þá lá fyrir að fyrir þær var greitt í reiðufé og var það í samræmi við yfirlýsingu endurskoðandans til fyrirtækjaskrár. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi hafði Dofri sjálfur sagt að „samkvæmt lögunum þá ber sérfræðingi aðeins að staðfesta að greiðsla fyrir hlutaféð hafi farið fram, ekki að staðfesta hvort þeim verði varið skynsamlega. Ætlar félagið til að mynda að bjóða starfsmönnum til tunglsins? Það kemur mér ekkert við.“
Á þetta féllst dómurinn en þar sagði að hlutafjáraukningin hefði sannarlega skilað sér inn á reikning félagsins og sú staðreynd að þeir hefðu aðeins snertilendingu í bókum þess gæti ekki gefið tilefni að „kanna sérstaklega fyrir hvað væri greitt eða kanna eignarhald og starfsemi félagsins sem útgjöldin gengju til“.
- Sjá meira: Hringfært fé gegnum fjárfestingaleið?
Sem fyrr segir byggði þrotabúið á því í annan stað að áritun endurskoðandans á samrunareikning félaganna hafi verið röng en lögum samkvæmt skulu félagsstjórnir „annast að saminn sé endurskoðaður sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur“. Taldi þrotabúið að ranglega hefði verið staðið að því verki.
Áritunarvenja ekki í samræmi við lög
Í áritun endurskoðandans á samrunareikninginn sagði að hann byggði á „árshlutareikningum félaganna“ og að „drög að upphafsefnahagsreikningi […] [væru] í samræmi við samrunaefnahagsreikninginn“. Í framburði Dofra fyrir dómi kom fram að umræddur reikningur hefði ekki verið endurskoðaður en slíkt er lögskylt samkvæmt reglum félagaréttarins. Þá sagði hann enn fremur að fyrirtækjaskrá tæki slíkar áritanir góðar og gildar og jafnvel áritanir um að reikningur hefði ekki verið endurskoðaður.
„Sú venja sem Rögnvaldur Dofri lýsti fyrir dóminum að hefði skapast við áritun og gerð samrunaefnahagsreikninga er ekki í samræmi við fyrirmæli laga um endurskoðun,“ segir í dóminum. Þar er þess enn fremur getið að þótt félög kunni að vera endurskoðunarskyld þá sé þeim almennt ekki skylt að leggja fram endurskoðaða árshlutareikninga.
„Enda þótt umrædd lagaskylda til að saminn sé endurskoðaður reikningur hafi hvílt á stjórn [Sameinaðs sílikons], en ekki stefndu, þá mátti góður og gegn endurskoðandi gera sér grein fyrir þeim skyldum sem fælust í aðkomu hans að þeim reikningi lögum samkvæmt. Samrunareikningurinn átti samkvæmt afdráttarlausu orðalagi laganna að vera endurskoðaður,“ segir í dóminum. Orðalag áritunar eða meint venja, um hvað kemst í gegn hjá fyrirtækjaskrá, gæti engu breytt þar um.
- Sjá meira: Endurskoðandi með réttarstöðu sakbornings
Að mati dómsins var þar á ferð saknæm háttsemi „að taka með félagsstjórn þátt í því að ganga frá málum með þessum hætti“ en saknæmi er eitt af frumskilyrðum þess að til bótaskyldu geti stofnast. Þó taldi dómurinn, sem skipaður var sérfróðum meðdómanda, sem er löggiltur endurskoðandi, að jafnvel þótt samrunaefnahagsreikningurinn hefði verið endurskoðaður „þá hefði sú vinna ekki leitt annað í ljós varðandi fjárhag félaganna en það sem fram kemur í hinum áritaða óendurskoðaða reikningi.“
Sú yfirsjón, að senda frá sér óendurskoðaðan samrunaefnahagsreikning, hefði því í raun ekki haft nein áhrif á framvindu málsins og skorti því upp á það að orsakatengsl væru milli háttseminnar og hins meinta tjóns. Breytti engu í þeim efnum að aðgæsluskylda endurskoðenda, sem sérfræðinga og opinberra sýslunarmanna, væri rík.
Sökum þess voru EY og Rögnvaldur Dofri sýknuð af bótakröfu þrotabúsins. Þá var þrotabúinu gert að greiða tvær milljónir króna í málskostnað.