Hluta­bréf í bandarískum mat­væla­fram­leiðendum hafa tekið högg frá því að Donald Trump var kjörinn for­seti Bandaríkjanna.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal má rekja lækkunina til til­nefningar Trumps á Robert F. Kenne­dy Jr. sem næsta heil­brigðis­ráðherra Bandaríkjanna.

Kenne­dy hefur opin­ber­lega sagst ætla að draga úr sykri og öðrum gervi­efnum í mat­vörum sem eru fram­leiddar í Bandaríkjunum en stór hluti heil­brigðis­vanda Bandaríkjanna má rekja til matar­æðis.

Frá því að Trump var kjörinn hefur gengi mat­væla­fram­leiðandanna Kraft Heinz, General Mills og Campell Soup lækkað um 7% að meðaltali.

Hluta­bréf í Coca Cola hafa lækkað um 4,5% síðastliðinn mánuð á meðan hluta­bréf í PepsiCO hafa lækkað um 5,7%.

Ef Kenne­dy verður næsti heil­brigðis­ráðherra Bandaríkjanna getur hann sam­kvæmt The Wall Street Journal mjög auðveld­lega hafist handa við að tækla auka­efni í bandarískum mat­vælum.

Heil­brigðis­ráðherra getur beint því til lyfja- og mat­væla­eftir­lits Bandaríkjanna (FDA) að taka harðar á gervi­efnum, litar­efnum og sætu­efnum og skikkað fyrir­tæki til að þurfa gera betur grein fyrir þeim á vörum sínum eða bannað þau.

Stóru mat­væla­fyrir­tækin í Bandaríkjunum hafa þó tekið marga slagi við FDA í gegnum tíðina og hafa þau verið fljót að aðlaga sig breyttum reglum t.d. þegar eftir­litið fór á eftir trans­fitusýrum í mat­vælum árið 2015.

Að mati WSJ mun stefnu­breyting Kenne­dy, verði hann ráðherra, hafa áhrif á tekju­streymi stór­fyrir­tækjanna en þó ekki að því leyti að þau muni ekki ráða við það.