Rekstur Sýnar hefur verið nokkuð þungur undanfarið og fyrir vikið hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 52% á síðustu 12 mánuðum. Í lok síðasta árs nam markaðsvirði Sýnar tæplega 8 milljörðum króna. Á þessu ári hefur gengi hlutabréfa Sýnar aftur á móti lækkað um nærri 33% og nemur markaðsvirði félagsins þegar þetta er skrifað 5,3 milljörðum króna.
Sýn er fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki. Áhugavert er að setja markaðsvirði Sýnar í samhengi við markaðsvirði hinna stóru fjarskiptafélaganna, Símans og Nova, sem einnig eru skráð á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Þegar þetta er skrifað nemur markaðsvirði Nova 15,1 milljarði og er því nærri þrefalt hærra en markaðsvirði Sýnar. Þá er markaðsvirði Símans nærri sjöfalt hærra, eða 35 milljarðar. Þó þau eigi það öll sameiginlegt að stunda fjarskiptarekstur eru félögin í eðli sínu nokkuð frábrugðin. Síminn er líkt og Sýn í fjölmiðlastarfsemi en rekur þó ekki eigin fréttastofu.
Samkvæmt nýjustu skýrslu Fjarskiptastofu um tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn, sem nær yfir fyrri helming síðasta árs, var Vodafone (Sýn) með rétt rúmlega fjórðungs markaðshlutdeild þegar horft er til heildarfjölda áskrifta á farsímaneti. Til samanburðar var Nova með 33,3% markaðshlutdeild og Síminn 35,9%. Þegar horft er til internettenginga nemur markaðshlutdeild Vodafone 24,6%, Símans 44,9% og Nova 18,3%.
Brostnar vonir
Á föstudaginn gaf Sýn út uppgjör ársins 2024. Það kom fáum á óvart að afkoma síðasta árs var heldur dræm hjá Sýn, enda var félagið búið að vara markaðinn við með afkomuviðvörun í byrjun febrúar að rekstrarhagnaður (EBIT) yrði í kringum 700 milljónir króna en uppfærð afkomuspá gerði ráð fyrir að EBIT lægi að neðri mörkum bilsins 900-1.100 milljónir króna.
Helstu ástæður voru sagðar að auglýsingatekjur hafi reynst talsvert undir upphaflegum áætlunum, eða 258 milljónum á síðustu tveimur fjórðungum ársins og áskriftartekjur af sjónvarpsmiðlum hafi verið 106 milljónum undir markmiðum. Auk þess hafi félagið á grundvelli eignfærslustefnu tekið ákvörðun um að eignfæra minni launakostnað en áætlað var og nam mismunurinn 112 milljónum. Loks varð félagið fyrir brunatjóni sem metið var á um 600 milljónir um mánuði eftir útgáfu afkomuspár. Samþykkt bótafjárhæð nam 207 milljónum en bruninn hafði í för með sér aukinn kostnað, auk þess að kalla á auknar fjárfestingar til endurnýjunar á skemmdum búnaði.
Raunin varð sú að EBIT, fyrir virðisrýrnun, nam 739 milljónum króna árið 2024. Til samanburðar nam EBIT 3,5 milljörðum árið 2023. Þess ber þó að geta að í ársreikningi 2023 var bókfærður 2,4 milljarða hagnaður af 3 milljarða króna sölu stofnnets til Ljósleiðarans. Leiðrétt fyrir hagnaði af sölu stofnnetsins á fjórða ársfjórðungi 2023 var EBIT 1,1 milljarðar króna árið 2023.
Þrjár afkomuviðvaranir á einu ári
Fyrrgreind afkomuviðvörun var ekki sú eina sem Sýn hefur sent frá sér á rétt rúmu ári. Í febrúar í fyrra var greint frá að vegna einskiptisliðar upp á 840 milljónir króna sem ákveðið var að gjaldfæra á árinu 2023 yrði EBIT afkoma ársins 1,1 milljarðar, án hagnaðar vegna sölu á stofnneti. Áður útgefið EBIT afkomubil var 2,2-2,5 milljarðar króna. Af einskiptisliðum vógu þyngst afskriftir sýningarrétta, afskriftir eigna hjá innviðum og kostnaður vegna starfsloka þáverandi forstjóra, Yngva Halldórssonar, auk starfsloka annarra starfsmanna í tengslum við hagræðingaraðgerðir.
Í lok apríl 2024 sendi Sýn svo frá sér afkomuviðvörun þar sem kom fram að EBIT samstæðunnar yrði um 120 milljónir á fyrsta ársfjórðungi, sem var töluverð lækkun frá sama tímabili árið áður er EBIT nam 428 milljónum. Lækkun á farsímatekjum um 138 milljónir ásamt hærri afskriftum sýningarrétta var sagður helsti orsakavaldurinn.
Afkomuspár stjórnenda Sýnar hafa því þegar á hólminn er komið reynst of bjartsýnar undanfarin tvö rekstrarár. Rekstrarspá stjórnenda fyrir árið 2025 gerir ráð fyrir að EBIT verði á bilinu 800-1.200 milljónir króna. Spáin tekur ekki tillit til mögulegrar lækkunar kostnaðar við rekstur fjarskiptainnviða í gegnum víðtækara samstarf á vettvangi Sendafélagsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að viðskiptavinum fjölgi umtalsvert á þessu ári en af orðum Herdísar Drafnar Fjeldsted, forstjóra Sýnar, í uppgjörstilkynningu ársins 2024 er ljóst að miklar vonir eru bundnar við endurkomu Enska boltans í því samhengi. Sýn tryggði sér sýningarrétt á Enska boltanum frá tímabilinu 2025/2026 til og með tímabilinu 2027/2028.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.