Hlutabréfaverð fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins Sýnar hefur hækkað um 5,2% í tíu viðskiptum, sem nema samtals 27 milljónum króna, í Kauphöllinni í dag. Gengi Sýnar stendur nú í 28,4 krónum á hlut og hefur alls hækkað um 16,9% á síðustu tveimur vikum.

Gengi Sýnar er enn um 12% lægra en í upphafi árs. Hlutabréfaverðið lækkaði umtalsvert í febrúar síðastliðnum þegar félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun og fór dagslokagengi hlutabréfanna lægst í 21,2 krónur.

Hlutabréfaverð Sýnar lækkaði talsvert um miðjan marsmánuð þegar tilkynnt var um kaup Skeljar fjárfestingafélags á 10% hlut í Sýn. Meðalgengi hlutabréfa félagsins á öðrum ársfjórðungi var í kringum 25 krónur á hlut.

Þann 12. júní síðastliðinn tilkynnti Sýn um að Vodafone og allar sjónvarpsstöðvar Stöðvar 2 hefðu sameinast undir merkjum Sýnar.

Í byrjun þessa mánaðar tilkynnti félagið um að frá og með 1. ágúst verði línulega sjónvarpsstöðin Sýn, áður Stöð 2, í opinni dagskrá fyrir alla landsmenn, en frá og með þeim tíma mun allt efni fyrst birtast á streymisveitunni Sýn+.

Enski boltinn að hrista upp í markaðnum

Þá styttist óðum í að Sýn fari að auglýsa af fullum krafti áskrift að Sýn Sport í tilefni af því að næsta tímabil Enska boltans hefst 15. ágúst næstkomandi. Fyrir rúmu ári síðan tryggði Sýn sér sýningarrétt á Enska boltanum frá tímabilinu 2025/2026 til og með tímabilinu 2027/2028.

Sýn bindir miklar vonir við að endurkoma Enska boltans leiði til töluverðrar fjölgunar viðskiptavina. Talið er að Sýn greiði á fjórða milljarð króna, fyrir sýningarrétt á Enska boltanum í þrjú ár.

Sýn tilkynnti í byrjun mánaðar að pakkaáskrift að streymisveitunni Sýn+ og öllum sportrásum muni kosta 11.990 krónur á mánuði.

Ingvi Þór Georgsson, framkvæmdastjóri Aflamiðlunar og annar umsjónarmanna hlaðvarpsins Pyngjunnar, vakti athygli á verðsamanburði á pakkaáskriftum hjá íslensku fjarskiptafyrirtækjunum á X í byrjun vikunnar og sagði ljóst að athyglisvert verði að fylgjast með uppgjörum félaganna á seinni árshelmingi.