Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,2% í 3,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Nítján félög hækkuðu og þrjú lækkuðu.
Mesta breytingin var á gengi hlutabréfa Sýnar sem hækkuðu um 16,1% í tæplega hundrað milljóna króna veltu. Hlutabréfaverð Sýnar stendur nú í 27,4 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan frá því að gengið féll um 17,7% fyrir rúmum mánuði síðan eftir að félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun.
Gera má ráð fyrir að hækkunin megi að hluta rekja til viðbragða við ríflega hálfs milljarðs króna viðskiptum með 10% hlut í félaginu í gær. Í dag var upplýst um að Skel fjárfestingarfélag hefði verið á kauphliðinni. Meðal seljenda var Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) sem seldi allan hlut sinn í fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu.
Auk Sýn þá hækkuðu hlutabréf Alvotech, Oculis, Eimskips og Símans um meira en eitt prósent í dag. Þá hækkaði hlutabréfaverð Skeljar um 1,7% í 33 milljóna veltu og stendur nú í 17,7 krónum á hlut.
Þrjú félög lækkuðu á aðalmarkaðnum í dag. Hlutabréfaverð Play féll mest eða um 5,9% í átján viðskiptum sem námu samtals 8 milljónum króna. Gengi Play stendur nú í 0,64 krónum á hlut og hefur dagslokagengi flugfélagsins aldrei verið lægra. Hlutabréf félagsins hafa fallið um 36% í ár.