Stjórn Sýnar samþykkti á stjórnarfundi félagsins í dag að hætta frekari skoðun á framtíðareignarhaldi á rekstrareiningunni Vefmiðlar og útvarp. Greint er frá þessu í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Sýn ákvað í desember að taka framtíðar eignarhald og stefnu nýju rekstrareiningarinnar Vefmiðla og útvarps, sem inniheldur m.a. Vísi og útvarpsmiðla Sýnar, til frekari skoðunar.
Félagið fékk Kviku banka til að til að vinna greiningu á rekstri og virði Vefmiðla og útvarps ásamt því að sjá um miðlun á afmörkuðum fjárhagsupplýsingum til mögulegra fjárfesta.
„Vegna nýrra áherslna í rekstri Sýnar með tilkomu nýs forstjóra og nýrrar stjórnar teljum við mikil verðmæti falin í framtíðartækifærum þessarar einingar. Því hefur verið ákveðið að hætta við skoðun á nýju eignarhaldi vefmiðla og útvarps en þess í stað verður lögð aukin áhersla á bættan rekstur félagsins,“ segir í tilkynningu Sýnar.
Í tilkynningunni segir að í viku hverri nota 95% landsmanna á aldrinum 18-80 ára fjölmiðla Sýnar. „Það er stefna Sýnar að styrkja þessa þjónustu enn frekar til framtíðar.“
Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega í byrjun desember um ákvörðun Sýnar að aðskilja fjölmiðlahluta Sýnar í tvær aðskildar rekstrareiningar. Heimildir blaðsins hermdu að Ari Edvald, fyrrum forstjóri 365 miðla, hefði áhuga á að kaupa ráðandi hlut í miðlum sem falla undir nýju rekstrareininguna Vefmiðlar og útvarp. Ari staðfesti í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að hann hefði sýnt þessu áhuga.
Móta lykilmarkmið og stefnu í rekstri Sýnar
Stjórn Sýnar hefur falið Herdísi Dröfn Fjeldsted, sem tók við sem forstjóri í janúar síðastliðnum, að hefja vinnu við mótun lykilmarkmiða og stefnu Sýnar í rekstri félagsins til framtíðar.
Fram kemur að sú vinna muni formlega hefjast eftir birtingu uppgjörs fyrsta ársfjórðungs. Afrakstur þeirrar vinnu verður kynntur fjárfestum á fjárfestadegi Sýnar síðar á þessu ári.