Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn skilaði 888 milljóna króna hagnaði eftir skatta á síðasta ári. Til samanburðar var tap af rekstri félagsins árið 2021 að teknu tillit til einskiptisliða vegna sölu á óvirkum innviðum. Stjórn Sýnar leggur til að greiddar verða út 300 milljónir í arð, að því er kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri.
Rekstrarhagnaður Sýnar (EBIT) nam 746 milljónum króna. Félagið sér fram á að EBIT verði í kringum 2,2-2,5 milljarðar króna árið 2023, fyrir utan 2,4 milljarða einskiptishagnað af samningi um sölu á stofnneti til Ljósleiðarans.
Sala félagsins jókst um 5,6% á milli ára og nam tæplega 23 milljörðum króna. Framlegð jókst um 13% og nam 8 milljörðum.
Heildarfjárfestingar Sýnar í ár námu tæplega 4 milljörðum króna. Þar af voru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) um 1,7 milljarða, samanborið við 1,2 milljarða árið 2021. Aukningin skýrist að mestu „af auknum krafti í 5G uppbyggingu“. Fjárfestingar í sýningarréttum voru um 2,3 milljarðar og lækkuðu um 250 milljónir milli ára.
Eignir Sýnar voru bókfærðar á nærri 34 milljarða króna í lok síðasta árs og eigið fé var um 9,5 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall var því um 27,9%.
Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar:
„Viðsnúningurinn heldur áfram og árangur ársins góður. Við höfum unnið í að lækka kostnaðargrunn félagsins sem skilaði árangri og mun skila sér enn frekar á árinu 2023. Rekstrarhagnaður á fjórða fjórðungi var 383 m.kr. þrátt fyrir einskiptikostnað vegna hagræðingaaðgerða sem ráðist var í upp á 150 m.kr. og afturvirkar launahækkanir að fjárhæð 50 m.kr. í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Það þýðir að heildar rekstrarhagnaður ársins er 1.592 m.kr.
Gerðar hafa verið talsverðar breytingar á rekstrinum á undanförnum mánuðum, skil skerpt milli rekstrareininga og unnið markvisst að því að lækka rekstrarkostnað félagsins á krefjandi tímum í efnahagslífinu. Hagræðing í rekstri félagsins hefur einnig falist í því að innleiða ný kerfi og tækni sem kosta minna til lengri tíma litið og tryggja örugg og sjálfbær fjarskipti. Við höfum ávallt lagt mikla áherslu á að fjárfesta í nýsköpun til að styðja við framþróun fyrirtækisins og nú horfum við enn frekar til sjálfbærni í því ljósi. Rekstur fjarskipta og fjölmiðla er í eðli sínu samfélagslega ábyrg starfsemi og eru því áhrif félagsins á samfélagið mikil. Við tökum hlutverki okkar alvarlega og horfum ríkulega til samfélags- og umhverfisþátta í starfseminni.
Við horfum björtum augun fram á veginn og erum í þeirri aðstöðu að gefa út afkomuspá sem ekki hefur verið gert undanfarin ár. Vonandi tryggir það ásamt meiri sýnileika einstakra rekstrareininga betri upplýsingagjöf út á markaðinn.
Ýmis jákvæð teikn eru á lofti fyrir árið 2023. Staða sjónvarpsáskrifta er góð, við höfum séð góð merki í fjölda internet viðskiptavina og notkun miðlanna okkar stendur gríðarlega vel hvort sem litið er til sjónvarps, útvarps, Vísis eða hlaðvarpa.“