Vefsíðan hefur verið starfrækt frá árinu 2000, fyrst sem Barnaland.is og frá árinu 2011 sem Bland.is. Vísir, sem er í eigu Sýnar, greinir frá því að Sýn hafi keypt sölutorgið af Heimkaupum og vísar í tilkynningu þess efnis.
Haft er eftir Yngva Halldórssyni, forstjóra Sýnar, að hægt sé að tengja hugmyndafræðina á bak við Bland við vefmiðla á borð við Vísi og stórbæta upplifun notenda af sölutorginu.
Í dag er Bland sölutorg fyrir notaða og nýja hluti sem og umræðuvefur. Sýn mun í framhaldinu taka yfir rekstur sölutorgsins. Ekki er greint frá kaupverðinu.
Wedo ehf. rekur vefverslunina Heimkaup og var að auki með rekstur undir vörumerkjunum Hópkaup og Bland en í apríl 2023 gekk félagið frá sölu á Hópkaup. Wedo skilaði 551 milljóna króna tapi árið 2022 samkvæmt ársreikningi.
Stærstu hluthafar Wedo í árslok 2022 voru Norvik með 33,5% hlut, Skel fjárfestingarfélag með 33,3% hlut og HIBB Holding með 24,4% hlut.