Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn hefur náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Eignarhaldsfélagsins Njálu, móðurfélags Já hf. sem rekur vefsíðuna ja.is. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.
Samkvæmt kaupsamningi mun Já selja dótturfélagið GI Rannsóknir, sem heldur utan um rekstur Gallup á Íslandi, til þriðja aðila fyrir afhendingu hins selda. Já keypti Gallup árið 2015.
Eignarhaldsfélagið Njála er í 81% eigu fjárfestasjóðsins Auðar I, í rekstri Kviku eignastýringar. Þá á SOKO, eignarhaldsfélag Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, fyrrverandi forstjóra Já og núverandi forstjóra Lyfju, um 14% hlut. Volta, í eigu Kjartans Arnar Ólafssonar, á 5% hlut í Eignarhaldsfélaginu Njálu.
Velta Já hf. nam 1,2 milljörðum króna árið 2021 og jókst lítillega frá fyrra ári. Félagið hagnaðist um 77,6 milljónir króna. GI rannsónkir velti 720 milljónum árið 2021 og hagnaðist um 21 milljón. Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 1.260 milljónir í árslok 2021 og eigið fé var um 433 milljónir króna.
„Með kaupum okkar á Já hefst vegferð þar sem við viljum byggja ofan á þá styrkleika sem Já er þekkt fyrir,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar. „Já er rótgróið vörumerki og ja.is er einn af tíu mest heimsóttu vefjum Íslands. Þangað leita einstaklingar til að finna upplýsingar um fólk, fyrirtæki og vörur. Miklir möguleikar eru í auknu þjónustuframboði byggt á öflugum kerfum félagsins og sterkum mannauð sem við erum mjög spennt að fá til liðs við okkur.“
„Við erum spennt fyrir því að ganga til liðs við Sýn og sjáum þar mikil tækifæri fyrir Já, sem part af þeirri flóru sem þar er fyrir. Á sama tíma fylgir því tregi að segja skilið við góða félaga hjá Gallup og óskum við þeim alls hins besta á sinni vegferð,“ segir Vilborg Helga Harðardóttir, forstjóri Já.
Ráðgjafar Já við söluna voru verðbréfafyrirtækið Arctica Finance og LMG Lögmenn en ráðgjafi Sýn við kaupin var Landslög.