Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 5,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Fjórtán félög aðalmarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins og tíu hækkuðu.

Sýn lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 4,1% í 23 milljóna króna veltu. Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um 27% frá áramótum og alls um helming undanfarið ár og stendur nú í 23,4 krónum á hlut. Markaðsvirði félagsins nemur nú 5,8 milljörðum króna.

Skel fjárfestingarfélag lækkaði næst mest eða um 3,9% í 135 milljóna veltu. Gengi Skeljar stendur nú í 19,8 krónum á hlut. Greint var frá því í dag að bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital hefði selt 5,2% hlut í Skel fyrir liðlega 2 milljarða króna á mánudaginn.

Mesta veltan eða um 1,1 milljarður króna var með hlutabréf Festi sem hækkuðu um 2,3% og stendur gengi smásölufélagsins nú í 315 krónum á hlut. Gengi félagsins hefur hækkað um 11% frá áramótum og aldrei verið hærra.

Þá hækkuðu hlutabréf fasteignafélaganna Reita, Eikar og Heima um eitt prósent eða meira í dag en síðastnefndu tvö félögin birtu bæði ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.