Hluta­bréfa­verð Sýnar hækkaði um tæp 4% í Kaup­höllinni í dag í 287 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Sýnar var 44,4 krónur og hefur gengið nú hækkað um tæpt eitt prósent í mánuðinum eftir 26% lækkun á árinu.

Í byrjun síðasta mánaðar til­kynnti Sýn að fjöl­miðla­rekstri fé­lagsins yrði skipt upp í tvær að­skildar rekstrar­einingar.

Við­skipta­blaðið greindi frá því í gær að við­loðandi orð­rómur hefur verið í nokkurn tíma að horft sé til þess að selja hluta af fjöl­miðla­rekstrinum. Upp­stokkunin kann að vera undan­fari slíkrar sölu.

Heimildir Við­skipta­blaðsins herma að Ari Edwald, fyrrum for­stjóri 365 miðla, fari fyrir hópi fjár­festa sem hafa á­huga á að kaupa ráðandi hlut í miðlum sem falla undir nýju rekstrar­eininguna „Vef­miðlar og út­varp“, þ. e. Vísi og út­varps­miðlana Bylgjuna, FM957 og X-ið.

Hluta­bréf Kviku banka hækkuðu um tæp 3% í dag í 648 milljón króna veltu. Gengi bankans hefur nú hækkað níu við­skipta­daga í röð og farið úr 13,3 krónum í 15,2 krónur. Líkt og önnur fé­lög á markaði er Kvika að eiga öflugan mánuð og farið upp um 7% en dræmt ár og lækkað um 18% á árinu.

Hluta­bréf í Marel lækkuðu ör­lítið í dag eftir hækkanir síðustu daga en dagsloka­gengið var 458 krónur eftir 569 milljón króna veltu.

Síminn lækkaði mest allra skráðra fé­laga og fór gengið niður um rúm 2% í 29 milljón króna veltu. Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,8% og var heildar­velta á markaði 3,8 milljarðar.