Sýn hf. gerir ráð fyrir að rekstrar­hagnaður félagsins (EBIT) fyrir árið 2024 verði um 700 milljónir króna, sem er veru­lega undir áður út­gefnum spám.

Fyrri áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir að EBIT myndi liggja á bilinu 900 til 1.100 milljónir króna, en í upp­færðri spá frá síðasta hausti var gert ráð fyrir að hagnaðurinn myndi nálgast neðri mörk þess bils.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu Sýnar koma þessi frávik til vegna veru­legrar lækkunar aug­lýsinga­tekna, sam­dráttar í áskriftar­tekjum sjón­varps, minni eign­færslna á launa­kostnaði og óvæntu tjóni vegna elds­voða sem hafði veru­leg áhrif á rekstur félagsins.

Endurmat á framtíðartekjum

Sala aug­lýsinga reyndist mun minni en gert var ráð fyrir í upp­haf­legum áætlunum.

Tekjur af aug­lýsingasölu voru 258 milljónum króna undir væntingum á síðustu tveimur fjórðungum ársins, þar af nam tekju­skerðingin 157 milljónum króna á fjórða árs­fjórðungi.

Þessi þróun leiddi til endur­mats á áætluðum framtíðar­tekjum af þessum rekstrarþætti. Sam­hliða því voru áskriftar­tekjur af sjón­varps­miðlum einnig undir væntingum og vantaði 106 milljónir króna upp á mark­mið félagsins á því sviði.

Auk þess hafði breytt eign­færslu­stefna áhrif á af­komu félagsins, þar sem tekin var ákvörðun um að eign­færa minna af launa­kostnaði en áður hafði verið áætlað.

Mis­munurinn vegna þessara breytinga nemur 112 milljónum króna. Þótt um sé að ræða bók­halds­lega ákvörðun frekar en raun­veru­legt út­streymi fjár er það engu að síður þáttur sem vegur þungt í lokaniður­stöðunni.

Það sem þó hafði mest áhrif á rekstrarniður­stöðuna var óvænt tjón vegna elds­voða sem varð um mánuði eftir út­gáfu síðustu rekstrar­spár félagsins.

Tjónið hefur nú verið metið á um 600 milljónir króna en samþykkt bóta­upp­hæð frá tryggingafélagi nemur aðeins 207 milljónum króna.

Elds­voðinn hefur því haft um­tals­verðan kostnað í för með sér og kallar jafn­framt á auknar fjár­festingar til endur­nýjunar á skemmdum búnaði, sem mun hafa áfram­haldandi áhrif á fjár­hag félagsins á komandi mánuðum.

Afkomuspá 2025 lækkuð

Þrátt fyrir þessar áskoranir hefur rekstur fjar­skipta verið í samræmi við áætlanir og mark­mið félagsins um aukna skil­virkni í rekstri haldið sér, samkvæmt félaginu.

Rekstrar­kostnaður hefur þróast í takt við væntingar og ekki farið fram úr áætlunum, sem hefur dregið úr neikvæðum áhrifum annarra þátta.

Í ljósi ofan­greindra frávika mun Sýn þurfa að endur­skoða áður gefnar spár um EBIT fyrir árið 2025 til lækkunar. Félagið mun kynna upp­færðar horfur fyrir árið 2025 sam­hliða birtingu endan­legs árs­upp­gjörs þann 20. febrúar næst­komandi.

Árs­upp­gjör félagsins fyrir 2024 er enn í vinnslu og geta endan­legar niður­stöður tekið breytingum fram að þeim tíma.