Rekstrarhagnaður (EBIT) Sýnar var um 120 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2024 samkvæmt drögum að samstæðuuppgjöri fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins sem liggur nú fyrir. Það er umtalsverð lækkun samanborið fyrsta fjórðung 2023 þegar rekstrarhagnaður félagsins nam 428 milljónum.
Í afkomuviðvörun Sýnar segir að það sem valdi einkum lægri afkomu sé lækkun á farsímatekjum um 138 milljónir króna. Það skýrist sérstaklega af IoT tekjum ásamt hærri afskriftum sýningarrétta.
Sýn bendir á að afskrift sýningarrétta var lægri árið 2023 vegna endursamninga við birgja, líkt og kom fram í árs- og árshlutareikningum félagsins fyrir árið 2023. Áhrif þess á fyrsta ársfjórðung 2023 námu 193 milljónum króna.
Áhrif hagræðingaaðgerða kynnt bráðlega
Sýn segir að áhrif þeirra hagræðingaraðgerða sem ráðist var í á árinu muni koma fram í ríkara mæli í afkomu félagsins á seinni helming ársins.
Áformað er að veita frekari upplýsingar um áætluð áhrif hagræðingaaðgerðanna í fréttatilkynningu í tengslum við birtingu árshlutauppgjörs félagsins.
„Kostnaðaraðhald verður áframhaldandi verkefni félagsins á þessu ári, ásamt áherslu á aukinn vöxt og skilvirkni í rekstri.“
Árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs 2024 verður birt eftir lokun markaða þann 7. maí næstkomandi. Sýn áréttar að árshlutauppgjör félagsins sé enn í vinnslu og geti tekið breytingum fram að birtingu.