Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn birti í dag ársreikning fyrir síðasta ár. Þar gagnrýnir félagið stjórnvöld harðlega fyrir aðgerðarleysi þegar kemur að samkeppni á fjölmiðlamarkaði.
„Þrátt fyrir endurteknar yfirlýsingar stjórnvalda um nauðsyn þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla og erlendra streymisveitna hafa stjórnvöld enn sem komið er ekki gripið til neins konar aðgerða í þá veru, svo sem með því að leggja skatt á erlendar streymisveitur eins og tíðkast víða í Evrópu, þ.m.t. á Norðurlöndum.“
Sýn bendir á að stjórnvöld endurgreiði milljarða til erlendra kvikmyndaframleiðenda á sama tíma og innlendum framleiðendum sé gert erfitt fyrir að sækja um sams konar endurgreiðslur.
„Á sama tíma hafa stjórnvöld leitt í lög endurgreiðsluheimildir úr kvikmyndasjóði til erlendra framleiðenda af kvikmyndum og sjónvarpsefni sem leiða munu til endurgreiðslu á um 3.600 milljónir króna vegna eins verkefnis. Sama löggjöf girðir fyrir að Stöð 2 geti sótt með beinum hætti um endurgreiðslur í kvikmyndasjóði vegna eigin framleiðslu á sjónvarpsefni.“
Framlög til RÚV hækkuð um 430 milljónir
Sýn bætir við að framlög til Ríkisútvarpsins hafi verið hækkuð um 430 milljónir króna á milli ára, meira en styrkir til allra einkarekinna fjölmiðla.
„Þá ber að nefna að framlög úr ríkissjóði til Ríkisútvarpsins voru hækkuð um 430 millj. kr. milli áranna 2021 og 2022, en sú fjárhæð er hærri en sem nam styrkjum til allra einkarekinna fjölmiðla, þ.e. ljósvakamiðla og dagblaða, á sama tímabili.“
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra sagði, í samtali við Viðskiptablaðið í september á síðasta ári, að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar verði fjármagnaðar að fullu í sinni ráðherratíð.
Á síðustu árum hefur þurft að auka verulega til fjárveitingar til málaflokksins í fjáraukalögum.
„Þetta er skuldbinding á ríkissjóð samkvæmt lögum. Þessar endurgreiðslur hafa alltaf verið vanáætlaðar en svo bætt í með fjáraukalögum, og þannig verður það líka núna. Það er það sem var gert í tíð Þórdísar Kolbrúnar, og það er líka gert í tíð Lilju Alfreðsdóttur,“ sagði Lilja ákveðin.