Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,4% í 3,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Langmesta veltan, eða einn milljarður króna, var með hlutabréf Íslandsbanka en gengi bankans stóð í stað í 119 krónum á hlut.
Play lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 12% í tólf viðskiptum sem námu samtals 2 milljónum króna. Gengi Play stóð í 0,81 krónu á hlut, samanborið við 0,83 krónur við lokun markaða í gær.
Play tilkynnti í gær að fjárfestahópur sem hafði boðað yfirtökutilboð á tilboðsverðinu 1,0 krónu á hlut, hefði fallið frá áformunum í ljósi áhuga stórra hluthafa Play um að halda flugfélaginu skráðu á markað.
Play tilkynnti samhliða um að það hefði tryggt sér bindandi skilyrt áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna
Auk Play, lækkuðu hlutabréf Kviku banka, Amaroq, Oculis, Icelandair og Heima meira en eitt prósent en gengi umræddra félaga féll um 1-2% í viðskiptum dagsins.
Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 7,4% í 27 milljóna veltu. Gengi Sýnar stendur nú í 29 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í byrjun apríl síðastliðnum. Hlutabréf félagsins hafa nú hækkað um tæp 20% á tveimur vikum.
JBT Marel var eina annað félagið sem hækkaði um meira en eitt prósent en gengi félagsins hækkaði um 1,3% í 358 milljóna veltu og sendur nú í 15.500 krónum. Hliuabréfaverð JBT Marels er þó enn 14% lægra en í upphafi árs.