Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn telur ekkert í fyrirstöðu að íslenska ríkið tilnefni hluta starfsemi fyrirtækisins sem almannaþjónustuhlutverk og geri í framhaldinu samning um ríkisstyrki á þeim grundvelli. Slíkur samningur væri hliðstæður þeim sem norska ríkið gerði við TV2 árið 2018.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Sýn skilaði inn með umsögn sinni um frumvarpsdrögum menningarráðherra um breytingar á stuðningskerfi ríkisins til einkarekinna fjölmiðla.

Meðal áformaðra breytinga er að hlutfall stuðnings til hvers umsækjanda geti ekki orðið hærri en sem nemur 22% af fjárveitingu til verkefnisins en áður var miðað við 25%. Slík breyting myndi hafa áhrif á styrki til Sýnar og Árvakurs, útgáfufélag Morgunblaðsins.

Afleitt ef eingöngu RÚV sinnti hlutverkinu

Sýn segir í umsögn sinni að ljóst sé að fréttastofa Stöðvar2, Bylgjunnar og Vísis, haldi úti þjónustu sem er sambærileg þeirri fréttaþjónustu sem TV2 annast og fær ríkisstuðning fyrir.

„Þjónusta fréttastofu Stöðvar2, Vísis og Bylgjunnar stuðlar að fjölbreytni og fjölræði í fréttaflutningi á ljósvakamiðlum. Án hennar væri eingöngu fréttastofa RÚV starfandi á ljósvakamiðlum, sem væri afleitt fyrir lýðræðislega umræðu og nauðsynlegt aðhald fjölmiðla.“

Sýn segir að slíkur samningur um almannaþjónustuhlutverk, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, myndi falla undir svokallaða SGEI ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um heimila ríkisstyrki. Stuðningurinn njóti þannig svokallaðrar hópundanþágu, sbr. ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 13. desember 2019. Nánar er fjallað um SGEI ákvörðunina í minnisblaðinu.

Sýn segir að það kunni að vera nauðsynlegt að skjóta lagastoð undir fyrirkomulagið, en samkvæmt gildandi lögum sé Ríkisútvarpið eini fjölmiðillinn sem lögum samkvæmt hefur almannaþjónustuhlutverk.

„Einnig kemur til álita að framleiðsla Sýnar í innlendu gæðaefni til fyrstu sýninga í sjónvarpi falli undir skilyrði SGEI ákvörðunarinnar. Sama gæti átt við um gæða barnaefni sem talsett er af Sýn.“

TV 2 fái allt að 1,7 milljarða íslenskra króna á ári

Í umsögninni er bent á að menntamálaráðuneyti Noregs tók ákvörðun í september 2018 um að útnefna TV2, stærstu einkareknu sjónvarpsstöðina í Noregi, með hlutverk í almannaþágu og gerði samhliða samning við sjónvarpsstöðina þar um. TV2 er í eigu dönsku fjölmiðlasamsteypunnar Egmont International Holding A/S.

Gagngjaldið (ríkisstyrkurinn) fyrir þjónustu í almannaþágu nemi allt að 135 milljónum norskra króna, eða tæplega 1,7 milljörðum íslenskra króna, á ári og á sú fjárhæð að dekka nettó kostnað við að veita þjónustuna auk hæfilegrar álagningar. Þessu fylgi skylda til bókhaldslegs og fjárhagslegs aðskilnaðar á almannaþjónustu frá annarri þjónustu fyrirtækisins.

Skuldbindingin nær til þess að senda út þjónustu í almannaþágu gegnum aðal sjónvarpsstöð sína og skal hún ná til í það minnsta 95% af heimilum í Noregi. Samkvæmt samningnum skuldbindi TV2 sig til að veita eftirfarandi fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu:

  • Daglega fréttaþjónustu (eigin framleiðsla), sem nær til alls landsins, þar með talið íþróttafréttir
  • Vikulega tungumálakennslu til ungmenna (samtals 72 klst. á ári) auk annarra þátta sem beint er að ungu fólki (samtals 20 klst. á ári)
  • Fyrstu sýningar á norskum bíómyndum og sjónvarpsþáttum. TV2 skuldbindur sig til að fjárfesta fyrir minnst NOK 250 milljónir á samningstímanum, sem er fimm ár.

TV2 heldur úti einni aðal sjónvarpsstöð en einnig nokkrum öðrum stöðvum, sem beinast að tilteknum markhópum, svo sem fréttastöð, lífsstílsstöð og sportstöð. TV2 heldur einnig úti streymisveitunni TV2 Sumo, sem er áskriftarveita.