CloudKitchens, sprotafyrirtæki sem rekið er af Travis Kalanick, fyrrverandi forstjóra Uber, íhugar að skrá rekstur sinn í Miðausturlöndum á markað, að sögn heimildarmanna Bloomberg.
Fyrirtækið, sem sérhæfir sig í svokölluðum samnýttum heimsendingareldhúsum (e. ghost kitchen), nýtur fjárstuðnings frá Þjóðarsjóði Sádi-Arabíu (e. Public Investment Fund), hefur ráðið bandaríska fjárfestingabankann Goldman Sachs til að annast undirbúning skráningarinnar.
Til skoðunar er skráning á hlutabréfamarkaði í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eða Sádi-Arabíu – eða jafnvel tvískráning í báðum löndum. Engar endanlegar ákvarðanir hafa þó verið teknar varðandi stærð útboðsins eða hvenær það fer fram, og búist er við að fleiri bankar bætist við söluferlið.
Samnýtt heimsendingareldhús eru sérhönnuð atvinnueldhús fyrir matargerð sem eingöngu er afhent í gegnum heimsendingar. Þetta fyrirkomulag varð vinsælt meðal nýrra veitingastaða sem vildu hefja rekstur með lágum tilkostnaði í gegnum matarsendingaforrit. Á meðan heimsfaraldri stóð gripu einnig stórar veitingakeðjur til þessara ráða til að auka tekjur, þó margar slíkar tilraunir hafi síðar orðið að engu.
CloudKitchens leigir út eldhúsrými til veitingastaða og býður upp á fjölbreytta þjónustu, þar á meðal stuðning við heimsendingar, viðhald og vörustýringu. Í Miðausturlöndum rekur fyrirtækið starfsemi undir merkjum KitchenPark í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sádi-Arabíu og Kúveit.
Árið 2019 fékk CloudKitchens 400 milljón dala fjárfestingu frá Þjóðarsjóði Sádi-Arabíu. Travis Kalanick er kunnugur sjóðnum frá fyrri tíð en hann fékk einnig fjárfestingu upp á 3,5 milljarða dala í Uber frá sjóðnum árið 2016. Honum var sagt upp störfum hjá Uber árið 2017 í kjölfar hneykslismála.