Netöryggisfyritækið Syndis, dótturfélag Origo, hefur stofnað nýtt félag um hugbúnaðarlausnina Aftra. Aftra er lausn sem kortleggur stafrænt fótspor fyrirtækja til þess að koma auga á hugsanlega veikleika sem hakkarar gætu nýtt sér.
Aftra byggir á aðferðarfræði hakkara og býður uppá ytri og innri veikleikaskönnun, vef-veikleikaskönnun og sjálfvirka árásarflataruppgötvun. Markmið lausnarinnar er að hjálpa stjórnendum að skilja og taka aukna ábyrgð á netöryggi sinna fyrirtækja. Stjórnendur fá aðgang að einföldu mælaborði sem gefur þeim öryggiseinkunn út frá þeim veikleikum sem kunna að finnast.
Björn Orri Guðmundsson er framkvæmdastjóri Aftra. Undanfarin ár hefur Björn leitt teymi hugbúnaðarþróunar hjá Syndis. Áður en hann kom til Syndis var hann í ýmsum leiðtogahlutverkum hjá Tempo í hugbúnaðarþróun þar sem hann vann mikið með DevOps, bakenda og framenda, ásamt því að leiða vöruþróunarteymi. Björn útskrifaðist með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2011.
Sindri Guðmundsson er tæknistjóri Aftra. Hann hefur yfir 13 ára reynslu af hugbúnaðargerð og hefur starfað hjá fyrirtækjum á borð við Trackwell, Andes og Tempo þar sem hann gengdi ýmsum hlutverkum. Sindri hefur starfað hjá netöryggisfyrirtækinu Syndis frá árinu 2021 og séð um forritun, rekstur og DevOps. Sindri útskrifaðist með BSc í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2012.
Stefanía Berndsen er sölu- og markaðsstjóri Aftra. Stefanía hóf störf hjá netöryggisfyrirtækinu Syndis í ágúst 2023 en hún starfaði áður við sölu á hugbúnaði hjá öryggisfyrirtækinu Keepit og sprotafyrirtækinu Develop Diverse í Kaupmannahöfn. Stefanía er með BSc gráðu í Business, Language and Culture frá Copenhagen Business School með áherslu á spænsku og hún útskrifaðist með MSc gráðu í Diversity and Change Management frá sama skóla árið 2020.