Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrum þingmaður, hrósar ríkisstjórninni fyrir að ganga í það verk að einkavæða 20% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.
Að hans mati á ríki ekki að standa í samkeppnisrekstri sem auk þess getur verið áhættusamur eins og kom berlega í ljós í hruninu.
„Athygli vekur hins vegar að það er eins og jörðin hafi gleypt í einum bita þá stjórnmálamenn sem hæst höfðu síðast þegar ríkið seldi eignarhluti í Íslandsbanka. Páll Magnússon og Björn Leví Gunnarsson koma þar t.d. upp í hugann.
Þá voru ráðherrar ríkisstjórnarinnar, einkum Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, ýmist sakaðir um að vera að gefa bankann eða veita kaupendum ríflegan afslátt af markaðsvirði hluta í honum,” skrifar Sigurður Kári á Facebook í dag.
Hann segir að það sé eins og þessir háværu gagnrýnendur hafi hreinlega misst málið „sem er einkennilegt í ljósi þess að útboðsgengi hluta í útboðinu nú er 106,56 krónur en var 117 krónur, þegar Bjarni og co stóðu að sölu hluta í bankanum.“
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær stefnir allt í að um fjárfestar fái um þrjá milljarða meira í sinn hlut af sölunni.
„En nú heyrist ekkert í þessu fólki, Birni Leví, Palla Magg og öllum hinum. Og enginn þeirra talar um að verið sé að gefa eignir ríkisins. Dálítið merkilegt og segir sína sögu um hversu ósamkvæmir sjálfum sér sumir stjórnmálamenn geta verið.“