Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi á mánudaginn 5,2% eignarhlut í Skel fjárfestingarfélagi fyrir liðlega 2 milljarða króna. Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu.

Alls seldi Taconic 96,85 milljónir hluta í Skel fyrir 1.995 milljónir króna ef miðað er við 20,6 króna dagslokagengi Skeljar á mánudaginn.

Taconic, sem var fjórði stærsti hluthafi Skeljar, keypti 5% hlut í Skel, sem hét þá Skeljungur, í byrjun árs 2022 þegar íslenskir lífeyrissjóðir, einkum Gildi, seldu stóran hlut í félaginu.

Taconic Capital kom að fjármögnun á skuldsettri yfirtöku fjárfestingafélagsins Strengs, sem Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyrir, á meirihluta í Skel. Strengur eignaðist ráðandi hlut í Skel í janúar 2021.

Taconic var stærsti hluthafi Arion banka um tíma en seldi sig út úr bankanum á fyrri hluta árs 2021.

Jón Ásgeir hefur sagt frá því að Skel horfi til þess að fá erlenda fjárfesta að félaginu. Taconic var stærsti erlendi fjárfestirinn í hluthafahópi Skeljar.

Félagið NO.9 Investments Limited er nú stærsti erlendi fjárfestirinn í hluthafahópi Skeljar með 3,1% hlut. Þar á eftir kemur Stefan John Cassar með 0,66% hlut og John Daniel Mccarthy með 0,60% hlut.

Stærstu hluthafar Skeljar 12. febrúar 2025

Eigandi Fjöldi hluta Í %
Strengur hf. 969.152.089 51,6%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn 157.420.970 8,4%
Birta lífeyrissjóður 135.559.002 7,2%
TCA ECDF III Holding S.á.r.l. 96.850.000 5,2%
NO.9 Investments Limited 58.293.084 3,1%
VÍS tryggingar hf. 30.000.000 1,6%
Íslandsbanki hf. 23.661.514 1,3%
Hofgarðar ehf. 20.683.333 1,1%
Eftirlaunasjóður FÍA 19.982.086 1,1%
Vörður tryggingar hf. 14.749.405 0,8%
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 13.561.140 0,7%
Arion banki hf. 12.723.347 0,7%
TM tryggingar hf. 12.622.000 0,7%
Stefan John Cassar 12.453.548 0,7%
Gildi - lífeyrissjóður 12.275.216 0,7%
John Daniel Mccarthy 11.367.356 0,6%
Birkir Baldvinsson ehf. 9.500.000 0,5%
IS EQUUS Hlutabréf 9.388.640 0,5%
Lífeyrissjóður bænda 9.316.904 0,5%
Landsbréf - Hekla hs. 8.063.954 0,4%