Vaxa var stofnað árið 2017 og byrjaði að rækta salat í gróðrarstöð sinni í Grafarholti í Reykjavík í lok árs 2018. Fyrsta uppskeran var í byrjun árs 2019 og selur félagið vörur sínar til veitingastaða og matvöruverslana hérlendis.

Í dag ræktar Vaxa salöt, sprettur (e. microgreens) og kryddjurtir. Andri Björn Gunnarsson, stofnandi félagsins, sér tækifæri í að þróa alls konar vörur í kringum stýrðan landbúnað.

„Við sjáum mikil tækifæri í því að færa okkur út fyrir salatið í alls konar annað grænmeti. Í þessum stýrða landbúnaði þá skiptir það ekki öllu máli hvað plönturnar eru nýttar í. Þær geta verið nýttar í snyrtivörur, lyf, eða hvað sem það er. Við erum búin að byggja upp þekkingu í kringum þessa hugmynd, að rækta plöntur í stýrðu umhverfi.“

Veltan jókst um fjórðung

Vaxa hefur vaxið ört frá fyrstu uppskeru í byrjun árs 2019. Vörusala félagsins nam 243 milljónum króna á síðasta ári og jókst um fjórðung milli ára. Félagið hefur sótt vel á annan milljarð króna í aukið hlutafé á síðustu tveimur árum, en í síðustu lotu var hlutafé félagsins aukið um 843 milljónir króna. Í nýjustu lotunni kom meðal annars inn í félagið Patrick de Muynck, hluthafi og fyrrum stjórnarformaður ræstingafyrirtækisins Daga. Þar að auki Poleved Industrial Performance AB, annar hluthafi Daga. David de Rothschild, viðskiptafélagi Björgólfs Thors, kom einnig inn í hluthafahópinn.

Í árslok 2023 var félagið í 41% eigu þeirra Björgólfs Thors, Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, meðeigenda hjá Novator í gegnum félagið BAT Real Estate S.á.r.l. sem er skráð í Lúxemborg. 32,8% hlutur í Vaxa var í eigu B Capital, félags í eigu bræðranna Sveins og Henrik Biering. Þá var 12,2% hlutur í eigu Andra Björns Gunnarssonar, stofnanda félagsins, og jafn stór hlutur í eigu Andra Guðmundssonar. Aðrir hluthafar áttu 1,9% hlut í Vaxa í árslok 2023.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.