Hátæknifyrirtækið DTE hefur klárað að setja upp kerskálalausn sína hjá Emirates Global Aluminum (EGA), einu stærsta álframleiðslufyrirtæki í heiminum.

Í tilkynningu segir að lausnin hafi verið í prófunum hjá EGA síðan á fyrri hluta ársins 2021, en nú hafa EGA ákveðið að taka lausnina í fulla notkun í framleiðslu sinni og var það verkefni klárað í ágúst síðastliðnum.

EGA rekur tvö álver í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og er talið vera einn af fremstu álframleiðendum heimsins þegar kemur að innleiðingu hátæknilausna, en EGA framleiddi yfir 2,6 milljónir tonna af áli árið 2021. Tækni DTE hefur verið innleidd í Jebel Ali álverinu í Dubai, þar sem framleiðslugetan er yfir milljón tonn á ári, en til samanburðar má nefna að heildarframleiðsla íslensku álveranna þriggja var um það bil 850 þúsund tonn árið 2022.

„Þetta er risastórt skref fyrir okkur hjá DTE og við erum mjög stolt af þessu samstarfi við EGA. Við höfum unnið mjög náið með þeim að þessari innleiðingu og munum kynna hrikalega spennandi niðurstöður á alþjóðlegri ráðstefnu í Dubai í byrjun nóvember,“ segir Karl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri DTE.

Tækni DTE byggir á skynjurum sem geta greint efnasamsetningu fljótandi málma með sambærilegri nákvæmni og tæki sem greina efnasamsetningu steyptra sýna. Lausnir DTE munu, að sögn fyrirtækisins, styrkja framleiðslu EGA, auka öryggi starfsmanna og auka orkunýtni til að lámarka neikvæð umhverfisáhrif.

„Við völdum lausnir DTE af því að við teljum að tækni þeirra muni bæta við einstöku virði við starfsemi og vöxt EGA. Við vonumst til að vinna áfram í sterku samstarfi við DTE.“ segir Abdalla Alzarooni, varaforseti hjá Technology Development & Transfer hjá EGA.