Stórir fjárfestingasjóðir vestanhafs, m.a. í stýringu Fidelity og T. Rowe Price, hafa verið tilneyddir til að selja töluvert af hlutabréfum undanfarið til að forðast það að lenda í klónum á bandarískum skattayfirvöldum.
Samkvæmt Financial Times hafa ósamhverfu hlutabréfaverðshækkanir ársins þrýst sjóðstjórum upp við vegg hvað varðar fjölbreytni eignasafna.
Samkvæmt reglum bandarískra skattayfirvalda þurfa öll skráð fjárfestingafyrirtæki að tryggja að samanlagt virði stærstu hlutabréfaeiga, í verðbréfa- og kauphallarsjóðum, fari ekki yfir 50% af virði annarra eigna.
Stór hlutabréfaeign í eignasafni telst vera eign sem myndar um 5% af heildarfjárfestingu sjóðsins.
Áður fyrr hefur þetta einungis verið vandamál fyrir sjóðstjóra sem reka mjög sérhæfða fjárfestingasjóði en nú hefur tæknibólan vestanhafs valdið því að hefðbundnir verðbréfasjóðir eru að lenda í vandræðunum.
Til að mynda hefur hlutabréfaverð Nvidia hækkað um 236% síðastliðið ár en virði bréfanna er því að ýta sjóðunum að þolmörkum skattayfirvalda.
Fimm stór tæknifyrirtæki, Nvidia, Apple, Meta, Microsoft og Amazon bera ábyrgð á 46% af hækkunum S&P 500 vísitölunnar á árinu.
„Þetta er erfið staða fyrir sjóðstjóra að vera í,“ segir Jim Tierney, fjárfestingastjóri Alliance Bernstein, í samtali viðFT.
„Í venjulegu árferði er ekkert mál að vera með stöðutöku sem myndar um 6 til 7 prósent af eignarsafninu en sjóðstjórar eiga það auðvitað til að fjárfesta í félögunum sem þeir hafa mikla trú á,“ bætir hann við.