Norski olíusjóðurinn skilaði 8,6% ávöxtun á fyrri hluta ársins sem samsvarar því að hreinar fjárfestingartekjur sjóðsins námu 1.478 milljörðum norskra króna, að því er segir í tilkynningu sjóðsins. Það jafngildir 19 þúsund milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.

Ávöxtun olíusjóðsins var 0,04 prósentustigum undir ávöxtun viðmiðunarvísitölu sjóðsins sem byggir á FTSE Global All Cap hlutabréfavísitölunni og Bloomberg Fixed Income skuldabréfavísitölunum.

Hlutabréfaeign olíusjóðsins skilaði 12% jákvæðri ávöxtun á fyrri árshelmingi en aðrir stórir eignaflokkar skiluðu neikvæðri ávöxtun.

„Hlutabréfafjárfestingar gáfu mjög góða ávöxtun á fyrri hluta ársins. Niðurstaðan var að mestu drifin áfram af hlutabréfum tæknifyrirtækja sem rekja má til aukinnar eftirspurnar eftir gervigreindarlausnum,“ segir Nicolai Tangen, forstjóri olíusjóðsins, í tilkynningu.

Ávöxtun skuldabréfasafns sjóðsins var -1%, ávöxtun af fjárfestingum í óskráðum fasteignaverkefnum var -1% og ávöxtun af óskráðum endurnýjanlegum orkuverkefnum var -18%.

Eignasafn olíusjóðsins var metið á 17.745 milljarða norskra króna í lok júní. Um 72% af eignum sjóðsins eru í hlutabréfum, 26,1% í skuldabréfum, 1,7% í óskráðum fasteignaverkefnum og 0,1% í óskráðum innviðaverkefnum tengdum endurnýjanlegri orku.

Fram kemur að veiking norsku krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum heims hafi leitt til þess að virði eignasafnsins jókst um 315 milljarða norskra króna á fyrri árshelmingi.