Stjórn Tækniþróunarsjóðs hefur samþykkt að bjóða fulltrúum 21 nýsköpunarfyrirtækis og frumkvöðla til samninga um nýja verkefnisstyrki fyrir 350 milljónum króna. Á haustmisseri bárust sjóðnum 224 umsóknir.
Á árinu hefur sjóðnum borist alls 602 umsóknir, sem er 19% aukning frá síðasta ári. Fjármagn sjóðsins var að mestu óbreytt frá fyrra ári og því lækkar hlutfall styrktra verkefna af fjölda umsókna árið 2018 í 14% í samanburði við 20% á síðasta ári. Hið lága úthlutunarfall endurspeglar að einhverju leyti hversu gróskumikið nýsköpunarumhverfið er, en að sama skapi má benda á að mörg góð verkefni eru ekki að fá framgang.
Verkefni sem berast sjóðnum eru af öllum sviðum atvinnulífsins og að þessu sinni fá verkefni úr ýmsum áttum stuðning eins og nýjungar í matvælaframleiðslu, lyfjaþróun, hugbúnaðargerð, heilsutækni og nýjar lausnir á samfélagslegum áskorunum. Mörg þessara nýsköpunarverkefna eru þverfagleg og eru allt frá nýsköpunarhugmyndum á frumstigi til verkefna við að koma nýrri vöru á markað.
Sjóðurinn heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hann starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
Tækniþróunarsjóður býður upp á sex styrktarflokka sem þjóna allri nýsköpunarkeðjunni frá rannsóknum og vöruþróun til markaðsstarfs og einkaleyfisumsókna. Sjóðurinn mun bjóða upp á nýja styrki til hagnýtra rannsóknaverkefna, styrki til nýsköpunarfyrirtækja og frumkvöðla á næsta ári.