Írska flugfélagið Ryanair hefur lækkað farþegaspá sína fyrir næsta fjárhagsár í annað sinn á skömmum tíma, einkum vegna tafa á afhendingum flugvéla frá Boeing.
Ryanair, sem er stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu, tilkynnti í dag að það geri ráð fyrir að flytja 206 milljónir farþega á næsta fjárhagsári, sem hefst í apríl, en félagið hafði áður áætlað að fjöldinn verði í kringum 210 milljónir. Boeing færði farþegaspána niður úr 215 milljónum í 210 milljónir í nóvember síðastliðnum.
„Í ljósi þess að Boeing 737 framleiðslan er enn að jafna sig eftir verkföllin hjá Boeing á seinni hluta árs 2024, gerum við ekki lengur ráð fyrir að Boeing geti afhent nægilega margar flugvélar fyrir sumarið 2025 til að standa undir vexti í farþegafjölda upp í 210 milljónir,“ segir Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, í kauphallartilkynningu.
Fjármálastjóri Ryanair, Neil Sorahan, sagðist hins vegar telja eftir að hafa heimsótt verksmiðjur Boeing í Bandaríkjunum í fyrr í mánuðinum að starfsemi Boeing sé að komast í betra horf.
Boeing er 38 flugvélum á eftir áætlun samkvæmt upphaflega samkomulagi sínu við Ryanair fyrir 737 Max 8 vélarnar.
Ryanair, sem er stærsti viðskiptavinir Boeing í Evrópu, þarf enn að fá átta vélar afhentar fyrir næsta sumar til að uppfærð farþegaspá haldi, að því er segir í umfjöllun Financial Times.