Fjármálaráðherra Taílands segist vilja auka innflutning frá Bandaríkjunum ásamt því að lækka skatta á bandarískar vörur. Þetta kemur fram á Reuters en þar segir að taílenska ríkisstjórnin vilji leitast við að semja um betri tollasamning við Bandaríkin.
Nýlega lagði Donald Trump Bandaríkjaforseti 36% toll á Taíland, næststærsta hagkerfi Suðaustur-Asíu, sem er mun hærri en embættismenn þar í landi bjuggust við.
Pichai Chunhavajira, aðstoðarforsætisráðherra Taílands, mun leiða komandi samningaviðræður en hann segir að markmið Taílands sé að ná jafnvægi í vöruviðskiptum við Bandaríkin á næstu tíu árum.
Forsætisráðherra Taílands, Paetongtarn Shinawatra, sagði í dag að búið væri að staðfesta fund milli viðskiptafulltrúa landanna en gaf ekki frekari upplýsingar um nákvæma dagsetningu.
Ríkisstjórn Taílands segist vilja flytja inn fleiri bandarískar vörur á borð við sojabaunir, hráolíu, jarðgas, bíla, rafeindatæki og flugvélar. Hún segist einnig vilja endurskoða reglur um innflutning á bandarísku svínakjöti.