Forstjóri japanska fjárfestingarbankans Nomura Holdings Inc. og aðrir háttsettir stjórnendur hans hafa ákveðið að taka á sig launalækkun í kjölfar ásakana um rán og morðtilraun af hálfu fyrrverandi starfsmanns.

Saksóknari ákærði 29 ára gamlan fyrrverandi starfsmann bankans í síðasta mánuði en hann er sakaður um að hafa byrlað öldruðum viðskiptavinum Nomura, stolið peningum af heimili þeirra og kveikt í því.

Kenaro Okuda, forstjóri Nomura, hyggst endurgreiða 30% af launum sínum yfir þriggja mánaða tímabil samkvæmt yfirlýsingu sem gefin var út í dag. Aðrir stjórnendur munu taka á sig sambærilegar launalækkanir.

Atvikið, sem átti sér stað í Hiroshima, er eitt af tveimur hneykslismálum sem hafa skaðað orðspor Nomura.

„Við viljum biðja fórnarlömbin, sem og marga aðra hluthafa, innilegrar afsökunar á þeim miklu óþægindum og áhyggjum sem málið hefur valdið. Okkur þykir þetta sannarlega leitt,“ sagði Okuda á blaðamannafundi í Tókýó.

Aðspurður út í menningarvandamál innan fyrirtækisins sem leiddu til málsins í Hiroshima útilokaði Okuda það ekki og sagðist taka því alvarlega.