Fjármálaráðuneytið hefur tilkynnt um að ríkið muni halda áfram að vinna að undirbúningi á sölu á hlut sínum í Íslandsbanka í almennu og opnu útboði, þrátt fyrir að Arion banki hafi lýst yfir áhuga á samunaviðræðum við Íslandsbanka.

Ráðuneytið segir þó nauðsynlegt að meta málið með vönduðum hætti áður en nokkur afstaða er tekin til erindis Arion banka.

Stjórn Arion banka ákvað á föstudaginn að lýsa yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna bankanna. Stjórn Íslandsbanka sagðist ætla að taka erindið til umræðu og ákveða næstu skref af hálfu bankans.

„Frestur stjórnar Íslandsbanka til að svara Arion banka er 14 dagar. Í ljósi þess að um er að ræða stórt mál, sem varðar tvo skráða banka á samkeppnismarkaði með fjölbreyttan hluthafahóp, er eðlilegt og nauðsynlegt að málið verðið metið með vönduðum hætti af hálfu ríkisins, stærsta hluthafans, áður en nokkur afstaða er tekin til erindis Arion banka,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Arion nefndi í tilkynningunni að kostnaður fjármálakerfisins sé enn hlutfallslega hár hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Þá sé bankinn tilbúinn að vinna með Samkeppniseftirlitinu til að tryggja að 5 milljarðar króna að lágmarki, af þeim árlega sparnaði sem myndi nást fram við samruna bankanna, skili sér til neytenda.

Ráðuneytið birti frumvarp um söluferlið í samráðsgátt birti á föstudaginn. Í tilkynningu ráðuneytisins er greint frá fyrirhuguðu fyrirkomulagi hlutafjárútboðsins en áformað er að þrjár tilboðsbækur verði í útboðinu.