Þýska ríkistjórnin fullgilti í síðustu viku samning um nýjan sameiginlegan evrópskan einkaleyfadómstól (Unified Patent Court Agreement - UPCA). Í frétt á vef Hugverkastofur segir að með staðfestingunni sé síðustu hindruninni rutt úr vegi fyrir nýju kerfi eins samræmds einkaleyfis í Evrópusambandinu (Unitary Patent) sem hleypt verður af stokkunum 1. júní næstkomandi.

Ísland stendur þó utan nýja kerfisins en verður áfram þátttakandi í samstarfi um evrópsk einkaleyfi á vegum Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) ásamt öðrum ríkjum.

Frá og með 1. júní verður hægt að fá eitt samræmt evrópskt einkaleyfi á uppfinningum sem gilda mun í öllum þeim 17 Evrópusambandsríkjum sem taka þátt í samstarfinu.

Hugverkastofa segir að meginbreytingarnar felist í því að ekki mun þurfa að fullgilda nýju einkaleyfin í hverju landi fyrir sig, aðeins þurfi að greiða eitt árgjald og ekki þurfi að reka mál vegna þeirra í mörgum ríkjum samtímis með hugsanlega ólíkum niðurstöðum.

„Um er að ræða viðamestu breytingar sem orðið hafa á hugverkavernd í Evrópu í fimmtíu ár og það verður spennandi að fylgjast með hvernig það mun þróast,“ segir Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar.

„Ríki Evrópusambandsins hafa lengi stefnt að því að koma á einu, samræmdu evrópsku einkaleyfi og evrópski einkaleyfasamningurinn, sem einmitt er fimmtíu ára í ár, var ákveðin þrautalending í því ferli.

Nú er þetta loksins að verða að veruleika og fyrir íslenska aðila sem hyggjast sækja um einkaleyfi á uppfinningum sínum í Evrópu má gera ráð fyrir að ferlið verði nú bæði einfaldara og ódýrara. Það á svo eftir að koma í ljós hvaða áhrif þetta muni hafa á staðfestingar á evrópskum einkaleyfum hér á landi.“