Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður Félagsbústaða, segir í bókun við fundargerð stjórnar að taka verði viðvaranir endurskoðenda Félagsbústaða um fjárhagslega sjálfbærni félagsins alvarlega.

Hann vísar í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi Félagsbústaða, dótturfélags Reykjavíkurborgar, sem var birtur í gær og segir endurskoðendurna ítreka ábendingu sína frá síðasta ári um að brýn þörf sé á að styrkja tekjugrunn félagsins til frambúðar til að tryggja sjálfbærni eða leita annarra leiða til hagræðingar í starfseminni.

Umrædd endurskoðunarskýrsla hefur ekki verið birt opinberlega en Viðskiptablaðið hefur óskað eftir afriti af henni.

Kjartan segir að í skýrslunni komi fram að miðað við áætlanir Félagsbústaða til lengri tíma, verði sjálfbærniviðmiðum ekki náð miðað við áframhaldandi óbreyttan rekstur.

„Í fjárhagsáætlun fyrir árin 2025-2029 var gert ráð fyrir 6,5% hækkun leigu umfram verðlagshækkanir frá miðju ári 2025 og var sú hækkun talin nauðsynleg til að tryggja að sjálfbærni sé náð á tímabilinu. Reykjavíkurborg hefur aðeins samþykkt 1,5% hækkun á leigu umfram verðlag frá 1. júní nk. Augljóst er að svo lítil hækkun mun ekki duga til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni félagsins.“

Tap upp á 1,3 milljarða án matsbreytinga

Samkvæmt ársreikningi Félagsbústaða námu rekstrartekjur félagsins 7.078 milljónum króna á árinu 2024, rekstrargjöld 4.104 milljónum og hrein fjármagnsgjöld 4.272 milljónum. Matsbreyting fjárfestingareigna nam 2.592 milljónum króna á árinu.

„Það gefur ekki rétta mynd af rekstri Félagsbústaða að nota slíka virðishækkun á fasteignum félagsins til að fegra rekstrarreikning þess, enda er slík matsbreyting reiknuð stærð, sem skilar ekki raunverulegum tekjum til rekstrarins. Án umræddrar matsbreytingar nemur tap félagsins 1.298 milljónum króna á árinu 2024,“ segir Kjartan.

Hann bendir á að veltufé frá rekstri hafi einungis numið 1.654 milljónum króna á árinu og rétt standi undir afborgunum langtímalána, sem nemi 1.606 milljónum.

„Afar lítið svigrúm er því fyrir hendi til fjárfestinga og því líklegt að þær verði fjármagnaðar með enn frekari lántökum. Skuldir félagsins námu 64.736 milljónum króna í árslok og jukust um 2,9% á milli ára.“

Þá hafi veltufjárhlutfall í árslok aðeins verið 0,46 sem sé langt undir því sem eðlilegt getur talist að sögn Kjartans. Alla jafna sé talið æskilegt að þetta hlutfall sé ekki undir 1,0. Handbært fé í árslok hafi aðeins verið 46 milljónir króna og lækkaði úr 429 milljónum eða um 383 milljónir á milli ára.

Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar, leigja út ríflega 3.100 íbúðir en það telst vera ríflega 5% af heildarfjölda íbúða í Reykjavík.