Íslenska auglýsingastofan The Engine, dótturfyrirtæki Pipar\TBWA, hefur tekið við rekstri The Engine Kaupmannahöfn og er því nú með starfsemi í Noregi, Íslandi og Danmörku.
Stafræna auglýsingastofan hefur ráðið til sín Jacob Petersen, sem svæðisstjóra The Engine í Danmörku og fær hann það hlutverk að byggja upp starfsemina á komandi misserum í samstarfi við stjórnendur The Engine Nordic. Jafnframt var flutningur á skrifstofu The Engine Kaupmannahöfn inn til TBWA\Connected í Kaupmannahöfn en náið samstarf er á milli stofanna.
„Þetta er stórt skref að auka fótspor okkar á Norðurlöndunum og erum við afar spennt fyrir þeirri vegferð sem stofan er á,“ segir Hreggviður Magnússon, framkvæmdastjóri The Engine, í tilkynningu.
„Starfsemin er að vaxa og við finnum fyrir aukinni eftirspurn fyrir stafrænum lausnum í ecommerce og á app markaði, með það lykilmarkmið að selja í gegnum stafræna markaðssetningu og fá sterkt ROI. Jafnframt hafa B2B fyrirtæki verið að sækja töluvert í þjónustu okkar með það að markmiði að sækja aukin tækifæri í gegnum efnismarkaðssetningu og hnitmiðaðar aðgerðir sem við köllum ABM eða Account Based Marketing.“
The Engine sérhæfir sig í stafrænni stefnumótun með notkun gagna, sjálfvirkni og snjallri notkun auglýsingatóla eins og Google, Meta, Snapchat, TikTok, LinkedIn.
Fyrirtækið vinnur nú alþjóðlega með viðskiptavini í þremur heimsálfum. Stærsti viðskiptavinur stofunnar er smáforritafyrirtæki í Bandaríkjunum.
„Að markaðssetja app og ná í nýja greiðandi notendur af appinu er langhlaup og krefst mikils aga og þekkingar á auglýsingatólunum, eitthvað sem teymið okkar býr yfir og hefur árangur okkar verið eftirtektarverður. Til að mynda var árangursrík herferð sem við unnum í samstarfi við DSP platformið Persona.ly á árinu með áherslu á gögn og sjálfvirkni til að virkja notendur sem höfðu halið niður appinu en ekki gerst greiðandi viðskiptavinir,” segir Hreggviður.
The Engine vinnur að áframhaldandi uppbyggingu á norðurlöndunum en stofan áætlar að opna í Helsinki í ár í nánu samstarfi við TBWA\Helsinki.