Borfyrirtækið North Tech Drilling ehf. (NTD) hefur verið að láta til sín taka að undanförnu en félagið tryggði sér á dögunum 4,6 milljarða króna samning við Orkuveituna um borun allt að 35 jarðhitahola í lok síðasta árs í kjölfar útboðs.
Geir Hagalínsson, stofnandi og framkvæmdastjóri NTD, sem hefur verið ráðgjafi HS Orku í bormálum, rekur aukna áherslu félagsins á íslenska markaðinn m.a. til þess að forsvarsmenn landeldisfyrirtækisins GeoSalmo í Þorlákshöfn leituðu til sín árið 2023 til að kanna samstarf um að bora 75 sjóholur.
„Ég spurði hvort ég mætti ekki skoða þann möguleika að bora þetta allt á rafmagni því það sparar verkkaupa í kringum 150 milljónir í olíukostnað á ári, auk þess að draga verulega úr kolefnislosun. Úr varð að við skrifuðum undir borsamning upp á þessar 75 holur og festum kaup á okkar fyrsta bor til að hafa á Íslandi,“ segir Geir. Hann bætir við að borinn, sem er sniðinn að þörfum landeldisins, sé væntanlegur til landsins í ár.
Í ljósi framangreinds samnings við Orkuveituna vinnur NTD nú að því að flytja inn annan stærri bor til landsins og leigja hann til tveggja ára hið minnsta.
Geir segir að NTD hafi einblínt á boraðferð sem nefnist „Green Drilling Method“, sem miði að því að lágmarka umhverfisáhrif af borunum. Fyrirtækið leitast þannig eftir að vera með öll tæki rafdrifin og lágmarka stærð borsvæða.
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Geir í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn, 15. janúar 2025. Þar ræðir hann m.a. um verkefni félagsins erlendis.