Fyrirtækið Sódavatn ehf., sem sérhæfir sig í sölu og áfyllingum á kolsýruhylkjum, hefur keypt rekstur Linde á kolsýruhylkjum fyrir sódavatnstæki á Íslandi. Með yfirtökunni fjölgar sölustöðum Sódavatns í 44.

Sódavatn var stofnað árið 2020 af hjónunum Marinó og Herdísi með það að markmiði að einfalda viðskiptavinum að laga kolsýrt vatn í eldhúsinu heima.

Fyrst um sinn bauð fyrirtækið upp á áskriftarþjónustu með heimsendingu þar sem tómu hylki var skipt út fyrir fullt hylki án mikillar fyrirhafnar fyrir viðskiptavini. Núna eru í kringum 1.500 viðskiptavinir í þessari áskriftarþjónustu.

Árið 2023 var sjálfvirk áfyllingarlína tekin í notkun og fyrirtækið fór að fylla á eigin hylki og bjóða í endursölu í Elko.

„Fyrir stofnun Sódavatns voru öll kolsýruhylki flutt full til landsins og aftur tóm erlendis til áfyllingar. Með áfyllingarverksmiðju Sódavatns sparast því þó nokkrir kílómetrar til og frá landinu með þunga vöru,” segir Marinó Valdimarsson, framkvæmdastjóri Sódavatns.

Kolsýruhylkin frá Sódavatni, 425 gr hylkin.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Samhliða yfirtökunni verður Sódavatn einnig opinber dreifingaraðili finnsku Mysoda sódavatnstækjanna sem hlotið hafa verðlaun fyrir hönnun og umhverfisvitund í vali á efnivið.

Forsvarsmenn Sódavatns ehf. segja þetta stórt skref í átt að því að tryggja að íslenskir neytendur og fyrirtæki hafi óheftan aðgang að hágæða kolsýruáfyllingum sem og framúrskarandi tækjabúnaði til að laga kolsýrt vatn í heimahúsum.

„Samstarfið við Mysoda mun tryggja það að Sódavatn getur boðið upp á allan pakkann fyrir íslenska neytendur og gerir það einfaldara en nokkru sinni fyrr að njóta svalandi sódavatns heima fyrir – án óþarfa umbúða og sóunar. Fyrst um sinn verða tækin í boði í öllum verslunum Elko og síðar á árinu á öðrum sölustöðum,“ segir Marinó

Hörð samkeppni við einnota umbúðir

Frá stofnun hefur Sódavatn lagt áherslu á að einfalda gerð sódavatns á heimilum landsins. Félagið segir samkeppnina við þægindi einnota umbúða vera harða en með því að fjölga sölustöðum og bæta úrval tækja og bragðefna á markaði verði baráttan auðveldari.

„Við erum spennt fyrir næstu skrefum og munum halda áfram að auka aðgengið að sódavatni fyrir íslensk heimili og fyrirtæki,“ segir Marinó að lokum.

Sódavatnstæki frá Mysoda munu fást í Elko.
© Aðsend mynd (AÐSEND)