„Það er alltaf mikið tilhlökkunarefni að hitta okkar frábæru félagsmenn á Iðnþingi og við eigum von á fjölmenni. Stórir viðburðir á borð við Iðnþing skipta miklu máli. Fólk úr iðnaði og öðrum greinum atvinnulífsins hittist, ber saman bækur sínar og á gott samtal. Það má ekki vanmeta þennan félagslega þátt. Samtök iðnaðarins hafa að mínu mati sjaldan eða aldrei verið öflugri en nú þegar styttist óðum í 30 ára afmælið og félagsmönnum hefur fjölgað hratt á undanförnum árum,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins (SI).

Tækifæri til vaxtar í öflugum iðnaði er yfirskrift Iðnþings samtakanna í ár. Árni segir dagskrá þingsins einmitt einblína á vaxtartækifærin sem til staðar séu í iðnaði hér á landi og varpa ljósi á hversu öflugur hann er. „Iðnaðurinn stendur að baki stórum hluta verðmætasköpunar og útflutningstekna í hagkerfinu. Með hliðsjón af tölum Hagstofunnar skapar íslenskur iðnaður, sem spannar mjög breitt svið, 44% útflutningstekna þjóðarinnar. Auk þess starfa hérlendis um 47 þúsund manns í iðnaði.“

Þetta sýni svart á hvítu hvað iðnaðurinn sé mikilvægur þjóðarbúinu. „Öfugt við sjávarútveg og ferðaþjónustu, sem eru mikilvægar stoðir útflutningstekna þjóðarinnar ásamt orkusæknum iðnaði og hugverkaiðnaði, eru tækifærin til vaxtar í iðnaði nánast óendanleg. Tækifærin eru sérstaklega mikil í hugverkaiðnaðinum sem þarf ekki að treysta á takmarkaðar náttúruauðlindir heldur snýst hann fyrst og fremst um að reyna á mátt hugans og að virkja hugvitið,“ segir Árni og bætir við að á Iðnþinginu verði að sjálfsögðu einnig fjallað um vaxtartækifæri annarra greina iðnaðar.

Árni bendir á að mörg glæsileg fyrirtæki sem reiði sig á hugverk hafi hafið starfsemi hér á landi á undanförnum árum. „Fyrirtækin eru í hröðum vexti, sífellt að bæta við sig starfsfólki og eru mörg hver þegar með töluverð umsvif utan landsteinanna. Þessi fyrirtæki bjóða upp á verðmæt störf og skila miklu til þjóðarbúsins. Flest könnumst við við gömul og góð hugverkafyrirtæki á borð við Marel, Össur og CCP en svo hafa fyrirtæki eins og Controlant, Kerecis, Nox Medical og Alvotech, svo fá séu nefnd, verið að gera sig gildandi á undanförnum árum. Að sama skapi eigum við ógrynni af spennandi og öflugum fyrirtækjum í græna orkugeiranum. Erlend ríki horfa öfundaraugum til Íslands vegna sérstöðu okkar í framleiðslu og nýtingu grænnar orku. Það eru því mikil tækifæri til staðar fyrir íslensk fyrirtæki í græna orkugeiranum að nýta reynslu sína til góðs með því að hasla sér völl erlendis og taka jafnvel leiðandi stöðu á sínu sviði á heimsvísu.“

Árni segir SI hafa óbilandi trú á að íslenskum iðnaði. Samtökin séu fullviss um að iðnaðurinn geti vaxið og aukið verðmætasköpun á öllum sviðum. „Skilyrði til vaxtar eru almennt mjög góð. Iðnaðurinn stóð sig mjög vel og óx í kjölfar hrunsins og gerði það einnig í gegnum þessi erfiðu Covid ár. Það var vöxtur í flestum greinum iðnaðar þrátt fyrir þær áskoranir sem faraldurinn hafði í för með sér. Það hefur aðeins gefið á bátinn í framleiðsluiðnaði og það eru enn alltof miklar sveiflur í mannvirkjageiranum, þá sérstaklega í byggingariðnaði. Húsnæðismarkaðurinn og innviðaframkvæmdir eru undir mannvirkja- og byggingariðnaði komnar, svo þessi iðnaður er gífurlega verðmætur og mikilvægur. Við hjá SI höfum því kallað eftir ákveðnum stöðugleika og framtíðarsýn, bæði frá stjórnvöldum og atvinnulífinu í heild sinni. Það þarf að fara heildrænt yfir hvar iðnaðurinn getur vaxið og einblína svo á að styðja við þann vöxt með öllum mögulegum ráðum.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.