Eldur Ólafsson, framkvæmdastjóri AEX Gold, vill meina að rótina að þeim vanda sem Vesturlönd standi nú frammi fyrir megi rekja aftur til aldamóta. Þá hafi mikil áhersla verið lögð á að finna nægilega mikið af hráefnum til að byggja upp Kína sem hafi leitt til þess að stál, járn og hrávöruverð hafi almennt rokið upp í verði. „Svo fer að draga úr þessum gríðarlega vexti í eftirspurn eftir hrávöru og eftirspurnin verður mun stöðugri. Á þeim tímapunkti stoppar almennt öll fjárfesting inn í auðlindageirann."
Hann segir það taka um 10-15 ár að byggja upp námu - allt frá rannsóknarstigi yfir í framleiðslu. Námur séu hins vegar annars eðlis en til dæmis jarðhitavirkjanir, þær séu tæmandi auðlind og því þurfi alltaf að leita að nýjum. „Málmar hafa verið unnir um allan heim síðastliðin 200 ár og það eru ekki margir staðir eftir fyrir utan Grænland, Kólumbíu og Afganistan."
Í kjölfar kjarnorkuslyssins í Fúkúshima í Japan árið 2011 ákváðu Þjóðverjar að þeir myndu loka öllum sínum kjarnorkuverum. Hins vegar séu kjarnorkuver svipuð námum, að því leyti að það tekur 10-15 ár að loka þeim. „Fyrst um sinn nota Þjóðverjar kolaorkuver til að vega upp á móti lokun kjarnorkuveranna. Þegar mikill þungi fer svo að færast í loftslagsumræðuna sjá þeir fram á að þurfa að hætta því og ákveða að flytja inn gas frá Rússlandi þess í stað. Þegar leggja átti gasleiðslu frá Sýrlandi til Evrópu fara Rússar þar inn og loka á það til þess að ná algjöru tangarhaldi."
Eldur segir skipta miklu máli að skilja hversu langan tíma það tekur að vinna nýjar auðlindir. „Rússum er alveg sama þó að einhverjar BMW bílaverksmiðjur loki. Það eina sem skiptir þá máli er hrávaran. Þar af leiðandi eru þeir í svona sterkri stöðu í dag og hafa stillt allri sinni utanríkisstefnu upp með þetta að leiðarljósi."
Umræðan virðist nú vera komin í hring þar sem fólk virðist vera farið að sjá kosti kjarnorkuvera aftur. Hins vegar hafi enginn verið að leita að úrani síðustu ár þar sem eftirspurnin hafi minnkað og verðið lækkað. „Það er mikil vöntun á úrani í heiminum í dag sem flækir stöðuna ætlum við okkur að opna aftur kjarnorkuver."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .