Moody’s lækkaði lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna niður úr hæsta einkunnaflokki í gær. Samkvæmt Financial Times er um tímamót að ræða, þar sem í fyrsta sinn í rúma öld bera Bandaríkin ekki lengur AAA lánshæfiseinkunn hjá neinu af þremur helstu matsfyrirtækjum heims.
Moody’s lækkaði lánshæfiseinkunn niður í Aa1 líkt og S&P Global Ratings gerði árið 2011 og Fitch Ratings árið 2023.
Allar þrjár ákvarðanirnar byggjast á sömu áhyggjum: viðvarandi fjárlagahalla, aukinni skuldasöfnun og pólitískri stöðnun í Washington.
Moody’s bendir sérstaklega á að útgjöld til almannatrygginga vaxi hratt, skatttekjur standi í stað og hvorugur stjórnmálaflokkur virðist tilbúinn að stíga nauðsynleg skref til varanlegrar fjármálastefnu.
Fyrri lækkanir höfðu lítil áhrif á markaði og lækkuðu vextir meira að segja eftir lækkun S&P árið 2011.
Nú er staðan önnur. Krafan um 30 ára bandarísk ríkisskuldabréf rauk upp í gær og fór yfir 5%, sem endurspeglar vaxandi ótta fjárfesta og minnkandi traust á greiðslugetu ríkisins.
Aðgerðir stjórnvalda undir stjórn Donalds Trump, þar á meðal nýtt skattalagafrumvarp sem mun auka halla ríkissjóðs, hafa einnig aukið tortryggni fjárfesta.
Lánshæfislækkunin hefur leitt til harðra orðaskipta milli stjórnmálaflokka. Demókratar segja niðurstöðuna staðfesta að fjárlagastefna Trump sé óábyrg, en Repúblikanar telja að rót vandans séu sífellt hærri ríkisútgjöld og gagnrýna matsfyrirtækin fyrir ofsafengin viðbrögð.
Þetta er endurtekning á mynstri sem sást eftir lækkanir S&P og Fitch: gagnkvæmar ásakanir, pólitísk skot og engar raunverulegar aðgerðir. Hvorki ríkisstjórn Obama né Biden hefur náð að koma á langtímalausn, og skuldasöfnun heldur áfram.
Þörf á pólitískri samstöðu
Moody’s viðheldur stöðugum horfum fyrir lánshæfi Bandaríkjanna, en varar við að frekari hnignun í skuldastöðu eða stjórnsýslu gæti kallað á aðra lækkun. Án þverpólitísks samkomulags um tekjur og útgjöld mun staðan halda áfram að versna.
Aðeins yfirburðastaða bandaríkjadals sem leiðandi varagjaldmiðils heimsins hefur varið Bandaríkin gegn alvarlegum viðbrögðum markaðarins.
En þetta eru forréttindi sem eru ekki tryggð til framtíðar, samkvæmt FT. Hlutfall erlends gjaldeyrisforða sem geymdur er í dollurum hefur fallið úr 80% á áttunda áratugnum niður fyrir 60% í dag.
Fjárfestar halda enn að miklu leyti tryggð við bandarísk skuldabréf, þökk sé stærð og lausafjárstöðu markaðarins.
En hvert ágreiningsmál um skuldaþak og hver ný lánshæfislækkun grefur undan trausti og er ólíklegt að það muni leysast í bráð.