Moo­dy’s lækkaði láns­hæfis­ein­kunn Bandaríkjanna niður úr hæsta ein­kunna­flokki í gær. Sam­kvæmt Financial Times er um tíma­mót að ræða, þar sem í fyrsta sinn í rúma öld bera Bandaríkin ekki lengur AAA láns­hæfis­ein­kunn hjá neinu af þremur helstu mats­fyrir­tækjum heims.

Moo­dy’s lækkaði láns­hæfis­ein­kunn niður í Aa1 líkt og S&P Global Ratings gerði árið 2011 og Fitch Ratings árið 2023.

Allar þrjár ákvarðanirnar byggjast á sömu áhyggjum: viðvarandi fjár­laga­halla, aukinni skuldasöfnun og pólitískri stöðnun í Was­hington.

Moo­dy’s bendir sér­stak­lega á að út­gjöld til al­manna­trygginga vaxi hratt, skatt­tekjur standi í stað og hvorugur stjórn­mála­flokkur virðist til­búinn að stíga nauð­syn­leg skref til varan­legrar fjár­mála­stefnu.

Fyrri lækkanir höfðu lítil áhrif á markaði og lækkuðu vextir meira að segja eftir lækkun S&P árið 2011.

Nú er staðan önnur. Krafan um 30 ára bandarísk ríkis­skulda­bréf rauk upp í gær og fór yfir 5%, sem endur­speglar vaxandi ótta fjár­festa og minnkandi traust á greiðslu­getu ríkisins.

Að­gerðir stjórn­valda undir stjórn Donalds Trump, þar á meðal nýtt skatta­laga­frum­varp sem mun auka halla ríkis­sjóðs, hafa einnig aukið tor­tryggni fjár­festa.

Láns­hæfislækkunin hefur leitt til harðra orða­skipta milli stjórn­mála­flokka. Demókratar segja niður­stöðuna stað­festa að fjár­laga­stefna Trump sé óábyrg, en Repúblikanar telja að rót vandans séu sí­fellt hærri ríkisút­gjöld og gagn­rýna mats­fyrir­tækin fyrir ofsa­fengin viðbrögð.

Þetta er endur­tekning á mynstri sem sást eftir lækkanir S&P og Fitch: gagn­kvæmar ásakanir, pólitísk skot og engar raun­veru­legar að­gerðir. Hvorki ríkis­stjórn Obama né Biden hefur náð að koma á langtíma­lausn, og skuldasöfnun heldur áfram.

Þörf á pólitískri sam­stöðu

Moo­dy’s viðheldur stöðugum horfum fyrir láns­hæfi Bandaríkjanna, en varar við að frekari hnignun í skuldastöðu eða stjórnsýslu gæti kallað á aðra lækkun. Án þverpólitísks sam­komu­lags um tekjur og út­gjöld mun staðan halda áfram að versna.

Aðeins yfir­burðastaða bandaríkja­dals sem leiðandi vara­gjald­miðils heimsins hefur varið Bandaríkin gegn al­var­legum viðbrögðum markaðarins.

En þetta eru forréttindi sem eru ekki tryggð til framtíðar, sam­kvæmt FT. Hlut­fall er­lends gjald­eyris­forða sem geymdur er í dollurum hefur fallið úr 80% á áttunda ára­tugnum niður fyrir 60% í dag.

Fjár­festar halda enn að miklu leyti tryggð við bandarísk skulda­bréf, þökk sé stærð og lausa­fjár­stöðu markaðarins.

En hvert ágreinings­mál um skuldaþak og hver ný láns­hæfislækkun grefur undan trausti og er ólík­legt að það muni leysast í bráð.