Kristín Siggeirsdóttir, framkvæmdastjóri Janusar endurhæfingar, segir skjólstæðinga Janusar upplifa mikið bakslag vegna núverandi stöðu endurhæfingarstöðvarinnar.

Hún segir að hópurinn sem er með geðræn vandamál virðist liggja á milli ráðuneyta án þess að nokkur axli sjálfsagða ábyrgð á málaflokknum.

Janus endurhæfing hefur sérhæft sig í að veita ungu fólki, 18 ára og eldra, úrræði í rúm 25 ár en í lok febrúar var endanlega augljóst að leggja ætti niður starfsemi endurhæfingarstöðvarinnar. Þríhliða samningur sem hafði verið gerður milli Virk, Sjúkratrygginga Íslands og Janusar endurhæfingar rennur út 1. júní nk.

Kristín segir að forsvarsmenn Janusar hafi reynt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bjarga starfseminni með því að reyna að fá áheyrn og samning. Hún hafi hingað til haldið sig til hlés þegar kæmi að opinberri umræðu og segir að sú ákvörðun hafi verið tekin með hagsmuni skjólstæðinga að leiðarljósi.

„Nú er hins vegar korter í lokun og mér finnst rétt að stíga fram og leiðrétta þær rangfærslur sem hafa komið fram í máli stjórnvalda og Virk í fjölmiðlum. Heilbrigðisráðherra hefur til dæmis fullyrt að öllum sem njóta þjónustu hjá Janus endurhæfingu hafi þegar verið tryggt sambærilegt úrræði. Skjólstæðingarnir hafa hins vegar sjálfir bent á að þessi yfirlýsing sé röng og ekki í samræmi við þann veruleika sem þau búa við.“

Kristín segir að samkvæmt þeim svörum sem Janus hafi fengið sé augljóst að enginn áhugi sé til staðar til að semja við endurhæfingarstöðina. Hún bætir við að hópurinn hjá Janusi sé með margþættari og flóknari stuðningsþarfir en flestir skjólstæðingar Virk, sem eru um þrjú þúsund talsins.

„Við viljum bara að starfsemin gangi áfram til góðs.“

„Við erum búin að reyna allt. Við erum búin að bjóðast til að gefa hlutafé Janusar og erum líka búin að bjóðast til að gera Janus endurhæfingu að sjálfseignarstofnun þar sem óhagnaðardrifin samtök kæmu í stjórn. Janus endurhæfing borgar ekki út einhvern arð og við viljum bara að starfsemin gangi áfram til góðs.“

Hún furðar sig einnig á staðhæfingum heilbrigðisráðuneytisins um greiðslur til Janusar. Hingað til hafi ráðuneytið greitt 25% fyrir plássin á móti 75% framlagi Virk og segir ráðherra að það byggist á ákvörðun endurhæfingarráðs á vægi heilbrigðis- á móti starfsendurhæfingar.

Formaður endurhæfingarráðs hefur hins vegar gefið út yfirlýsingu sem segir að sú fullyrðing eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Kostnaðarskiptingin hefur þá byggst á þeim samningum og greiðslum sem voru í gildi á milli Janusar, Virk og Sjúkratrygginga Íslands.

„Þar að auki erum við að upplifa okkur sem munaðarlaus innan stjórnsýslunnar. Heilbrigðisráðherra hefur sagt að hún geti ekki gert samning við starfsendurhæfingu, sennilega vegna þess að hún telji málið heyra undir félagsmálaráðuneyti. Hins vegar hefur félagsmálaráðherra sagt að starfsendurhæfing sé ekki á hennar borði og eigi heima í heilbrigðisráðuneytinu.“