Matorka hefur orðið fyrir talsverðu tjóni af völdum skjálftanna á Reykjanesi en fyrirtækið starfrækir landeldisstöð við Grindavík. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir á föstudag og bærinn rýmdur í kjölfarið.

Matorka hefur orðið fyrir talsverðu tjóni af völdum skjálftanna á Reykjanesi en fyrirtækið starfrækir landeldisstöð við Grindavík. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir á föstudag og bærinn rýmdur í kjölfarið.

Árni Páll Einarsson, rekstrarstjóri Matorku, segir í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að tvö stór ker hafi brotnað illa og fyrir vikið hafi mikið af fiski drepist í þeim. Þá hafi tvö ker til viðbótar skemmst töluvert en þar tókst að bjarga fisknum.

„Starfsemin er náttúrulega í lágmarki þar sem rýming svæðisins gerir allan rekstur mjög erfiðan. Á meðan þetta ástand varir þá er framleiðsla engin en við vonumst til þess að geta komið vinnslu aftur í gang bráðlega. Aðstæður í fiskeldinu eru erfiðar þar sem við erum að eiga við talsverðar skemmdir og höfum takmarkaðan aðgang að eldinu eins og sakir standa. Þessu til viðbótar er stöðin keyrð á vararafstöðvum félagsins þar sem mikið rafmagnsleysi hrjáir nú svæðið,“ segir Árni Páll.

Að sögn Árna er mjög mikilvægt í ljósi dýravelferðar fyrir starfsfólk þeirra að komast inn á svæðið til að sinna fiskunum en með öryggið að leiðarljósi sé vel hægt að athafna sig og vinna mikilvæga vinnu án þess að taka óþarfa áhættu.

„Tjónið mun vissulega hafa neikvæð áhrif á reksturinn til skamms tíma en við ætlum að með samstilltu átaki þá mun fyrirtækið kjúfa þetta verkefni eins og annað sem fiskeldi þarf að takast á við. Nú er mikilvægt að sjá stuðning yfirvalda í verki þar sem fyrirtækin á svæðinu þurfa á allri þeirri hjálp sem fáanleg er.“


Hjá Matorku starfa um 20 manns við eldið og um 25 manns við fiskvinnslu, sölu og útflutning.