Hreinlætisvörusalan Tandur nærri tvöfaldaði hagnaðinn á milli ára á árinu 2023. Nam hagnaður félagsins 445 milljónum króna á árinu samanborið við 231 milljón króna hagnað árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.
Heildarvelta Tandurs nam 3,4 milljörðum króna á árinu samanborið við 2,8 milljarða árið áður. Tekjurnar jukust þannig um fjórðung á milli ára.
Rekstrargjöld Tandurs jukust um tæplega 400 milljónir milli ára og námu 2,8 miljörðum króna. Þar af námu laun og launatengd gjöld 643 milljónum.
Eignir félagsins námu 1,2 milljörðum króna í lok árs 2023 og eigið fé 555 milljónum.
Á árinu keypti félagið eigin hlutabréf að nafnverði 446.060 krónur og var kaupverðið að fjárhæð 400 milljónir króna.
Stjórn félagsins lagði til að arður að fjárhæð 175 milljónir króna yrði greiddur til hluthafa á árinu 2024 vegna ársins 2023.
Tandur er að fullu í eigu Sjávargrundar ehf., en Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, á 92% hlut í Sjávargrund.
Eftirstandandi 8% hlutur er annars vegar í eigu Spectrin ehf., félags í eigu Richards Kristinssonar Dulaney og hins vegar SVAGA ehf., félags í eigu Arnars Garðarssonar.