Árið 2024 var besta rekstrarár Hörpu frá opnun hússins árið 2011, að því er segir í fréttatilkynningu. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) jókst um 52% úr rúmlega 197 milljónum í rúmlega 300 milljónir króna milli ára .
Harpa tapaði 13,8 milljónum króna eftir skatta árið 2024, samanborið við 65,5 milljóna tap árið áður. Félagið birti ársreikning í dag.
Aldrei hafa fleiri miðar selst í miðasölu í Hörpu, alls 228.000 miðar samanborið við 199.000 árið áður. Heildarvelta miðasölu sem Harpa annast fyrir viðburðarhaldara nam 1.863 milljónum króna, sem er 32% aukning frá 1.408 milljónum árið 2023.
Á árinu 2024 fóru fram 1.411 viðburðir í Hörpu samanborið við 1.398 árið áður. Þar af voru 502 ráðstefnu tengdir viðburðir, þar á meðal ráðstefnur, fundir, veislur og móttökur. Listviðburðum fjölgaði um 11%, úr 811 í 879 viðburði.
Rekstrartekjur Hörpu námu tæplega 2,5 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 2,3 milljarða árið 2023. Rekstrarframlag frá eigendum nam 601 milljón króna í fyrra. Harpa er í 54% eigu íslenska ríkisins og 46% eigu Reykjavíkurborgar.
Eignir Hörpu voru bókfærðar á 36 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um 10,8 milljarðar.
Segja efnahagsleg áhrif nema 10 milljörðum króna
Á aðalfundi Hörpu í dag kynnti Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, formaður stjórnar, niðurstöður nýrrar skýrslu um hagræn áhrif af starfsemi Hörpu. Úttektin var gerð að frumkvæði Hörpu en unnin af Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrrverandi þingmanni Samfylkingarinnar, hagfræðingi og lögfræðingi fyrir hönd Rannsóknarseturs skapandi greina.
„Skýrslan sýnir glöggt að framlag Hörpu til samfélagsins er verulegt. Bein, óbein og afleidd efnahagsleg áhrif af starfseminni í Hörpu nema árlega um 10 milljörðum króna, en heildarskatttekjur vegna umsvifanna nema 9 milljörðum króna. Skatttekjur hins opinbera tengdar starfseminni í Hörpu eru því 15 sinnum hærri en árlegt rekstrarframlag ríkis og Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningu Hörpu.
Meðal annars er fjallað um áhrif aukinna alþjóðlegra tenginga, t.d. með viðburðum á borð við leiðtogafundi Evrópuráðsins og Hringborði Norðurslóða, talað um að fleiri stórar ráðstefnur fari fram hér á landi með, og jákvæð áhrif á tónlistarlíf og skapandi greinar.

„Þegar öllu er á botninn hvolft er verðmætasköpun hornsteinn hvers samfélags, nokkuð sem stendur undir hagvexti og lífsgæðum. Það er einmitt þessi hugmynd um verðmætasköpun fyrir samfélagið allt sem varð til þess að á síðasta ári hafði Harpa frumkvæði að því að sett var í gang vinna við að kortleggja efnahagslegt fótspor þeirrar starfsemi sem fer fram á vettvangi hússins. Í skýrslunni er horft til allrar starfsemi sem fram fer í Hörpu og tekið tillit til beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa af starfseminni, meðal annars á nærliggjandi þjónustuveitendur og komur ferðamanna til landsins,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir formaður stjórnar Hörpu.
„Það er hins vegar ljóst að Hörpuáhrifin verða ekki aðeins metin í krónum og aurum og þörf er á frekari rannsóknum til að leggja mat á samfélagsleg og menningarleg áhrif. Í greiningarvinnunni komu einnig fram ýmis dæmi um þau víðtæku áhrif sem tilkoma Hörpu hefur haft á atvinnulíf menningar og skapandi greina og samfélagið allt.”
„Við erum virkilega ánægð með þessa áframhaldandi bætingu í rekstrinum sem náðist með samstilltum metnaði alls starfsfólks Hörpu. Árið er það besta frá upphafi og fyrir það ber að þakka. Fjöldi og fjölbreytni viðburða, öflug miðasala og sterk bókunarstaða fyrir komandi misseri sýna skýrt að Harpa er miðpunktur menningarlífs og alþjóðlegra viðburða á Íslandi,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.
„Það er líka sérstaklega ánægjulegt að vera búin að fá greiningu á efnahagslegum áhrifum Hörpu og dregur skýrslan fram að verðmætasköpunin fyrir hagkerfið – og þar með samfélagið - er sambærileg eða meiri en áhrif annarra stórra menningarhúsa á borð við Óperuhúsið í Sydney og tónlistarhúsið í Hamborg.
Við komum einnig inn í 2025 með ferska stefnumörkun til ársins 2030 sem unnin var með þátttöku yfir hundrað manns. Áfram störfum við ötullega að því að Harpa sé ávallt á heimsmælikvarða, skapi efnahagsleg, menningarleg og samfélagsleg verðmæti á sjálfbæran hátt. Nýjar megináherslur stefnunnar eru að vera virkur þátttakandi í skapandi samfélagi, að vera táknmynd gæða, standa fyrir mannbætandi upplifun og tryggja að húsið sé í raun og sann okkar allra.”