Bílaumboðið Askja ehf. tapaði 132 milljónum króna eftir skatta árið 2024, samanborið við 830 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrartekjur bílaumboðsins dróst saman um 33%, úr 28 milljörðum í 19 milljarða króna, milli ára.

Stjórn Öskju segir að árið 2024 hafi af margvíslegum ástæðum verið litað ýmsum áskorunum. Töluverður samdráttur varð í sölu nýrra bifreiða á Íslandi frá fyrra ári, en alls seldust um 10 þúsund fólksbifreiðar á árinu 2024 samanborið við rúmlega 17 þúsund árið á undan.

Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, sagði í viðtali í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út í febrúar, að háir vextir, verðbólga og óvissa í kringum eldsumbrot á Reykjanesi hafi haft áhrif á eftirspurn í fyrra.

Þá telur hann að neytendur hafi upplifað að breyting á umfangi rafbílastyrkja ríkisins, sem tók gildi í árbyrjun 2024, hafi verið mun stærri en raun bar vitni með tilheyrandi áhrifum á eftirspurn eftir rafbílum.

Þrátt fyrir þriðjungssamdrátt í tekjum þá var rekstarafkoma (EBIT) umboðsins jákvæð um 50 milljónir króna. Til samanburðar nam EBIT-hagnaður Öskju 1,3 milljörðum árið 2023.

Eignir Öskju voru bókfærðar á 8 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um 3 milljarðar króna.

Vekra samstæðan velti 26 milljörðum

Bílaumboðið Akja er í eigu samstæðunnar VEKRA, sem á einnig m.a. Bílaumboðið Unu og bílaleiguna Lotus Car Rental.

Velta samstæðunnar dróst saman um 10,2% og nam 26,2 milljörðum króna, samanborið við 29,2 milljarða árið áður. Vekra tapaði 235 milljónum króna í fyrra samanborið við eins milljarðs króna hagnað árið áður. Eignir Vekra voru bókfærðar á 25 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um 5,7 milljarðar króna.

Feier ehf., félag í eigu hjónanna Hjörleifs Þórs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg, er stærsti hluthafi Vekru með 53,92% hlut. F.Bergsson Eignarhaldsfélag er næst stærsti hluthafinn með 22,93% hlut en umrætt félag er í eigu Frosta Bergssonar fjárfestis.

Franska félagið Groupe Comte-Serres á 10,78% hlut í Vekru. Þá á Hvítárhlíð, félag Jóns Trausta Ólafssonar, forstjóra Vekru og Öskju, og eiginkonu hans Eddu Bjarkar Kristjánsdóttur, 7,8% hlut. Hrókur eignarhaldsfélag, félag í eigu Andra og Darra Egilssona og Egils Ágústssonar, á 2,82% hlut. Loks á franska félagið Fonciere Marie Louie SAS 1,74% hlut.