Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP tapaði 2,9 milljónum dala, eða sem nemur um 405 milljónum króna, árið 2024 samanborið við 5,2 milljóna dala hagnað árið áður.

Heildartekjur CCP drógust saman um 3,9% milli ára og námu 70,4 milljónum dala eða um 9,7 milljarða króna í fyrra, samanborið við 73,2 milljónir dala árið 2023.

„Tekjur af leikjum jukust um 4,5 milljónir dollara (8%) milli ára, sem endurspeglar góða áframhaldandi þátttöku í EVE Online og útgáfu nýrra leikja, þar á meðal EVE Galaxy Conquest. Hins vegar skilaði fyrirtækið 2,9 milljóna dollara tapi, í samanburði við 5,6 milljóna dollara hagnað árið 2023,“ segir í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra í nýbirtum ársreikningi félagsins.

„Þessi breyting [á afkomu félagsins] stafar fyrst og fremst af markvissum og auknum fjárfestingum í mörgum þróunarverkefnum - þar á meðal EVE Frontier, EVE Vanguard, og Carbon hugbúnaðarlausninni - sem áætlað er að fari í lykilútgáfufasa frá miðju ári 2025 og áfram. Þessar fjárfestingar, þótt þær hafi áhrif á skammtímaafkomu félagsins, eru kjarni í stefnu CCP sem miðar að því að byggja undir markvissan og sjálfbæran vöxt til framtíðar.“

CCP segir að síðasta ár hafi einkennst af verulegri útvíkkun á leikjavöruframboði og tæknilausnum félagsins. Félagið nefnir m.a. að fjölspilunarleikurinn EVE Frontier var opinberlega tilkynntur í september síðastliðnum. Stefnt er að útgáfu leiksins í „Early Access“ í júní 2025.

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, sagði í viðatali við ViðskiptaMoggann í vikunni að til framtíðar horfi félagið allega til innir vaxtar. Það skipti öllu máli hvernig þeim þremur umfangsmiklu leikjum sem félagið hefur verið með í vinnslu um langt skeið - EVE Galaxy Conquest, EVE Vanguard og EVE Frontier - verði tekið á markaði.

Í lok ársins stóð eigið fé í 26,8 milljónum dala, eða um 3,7 milljörðum króna, og var eiginfjárhlutfall 48,5%. Heildareignir námu 55,3 milljónum dala eða um 7,6 milljörðum króna. Í árslok störfuðu 173 starfsmenn hjá félaginu, sem er sami fjöldi og í upphafi árs.

CCP var stofnað í Reykjavík árið 1997 en tölvuleikjasamstæðan hefur verið í eigu suður-kóreska fyrirtækisins Pearl Abyss Corp. frá árinu 2018.