Green Highlander ehf., sem rekur lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum, tapaði 4,7 milljónum króna árið 2023 samanborið við 103 milljóna króna árið 2022.

Green Highlander ehf., sem rekur lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum, tapaði 4,7 milljónum króna árið 2023 samanborið við 103 milljóna króna árið 2022.

Félagið seldi vörur og þjónustu fyrir 1.452 milljónir króna í fyrra, sem er um 6,9% aukning frá árinu 2022. Rekstrargjöld jukust um 17,2% milli ára og námu 1.516 milljónum króna. Ársverkum fjölgaði úr 62 í 65 milli ára.

Rekstrarafkoma (EBIT) Depla var neikvæð um 65 milljónir króna árið 2023 en til samanburðar var hún jákvæð um 64 milljónir árið áður.

Eignir Green Highlander námu 1,9 milljörðum króna og eigið fé var 802 milljónir í árslok 2023.

Hótelið var opnað í apríl árið 2016 og er það rekið af bandaríska ferðaþjónustufyrirtækinu Eleven Experience, sem rekur m.a. lúxus gististaði í frönsku Ölpunum, Patagóníu í Chile og í Klettafjöllunum í Colorado í Bandaríkjunum.

Juku hlutaféð um meira en milljarð á síðustu tveimur árum

Green Highlander er dótturfélag Blue Elver ehf. sem er í eigu hollenska félagsins Sun Ray Shadow Houdstermaatschappij BV. Chad Rustan Pike, fyrrum stjórnandi hjá Blackstone, er endanlegur eigandi þess samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins.

Eignir Blue Elver námu 5,1 milljarði króna í árslok 2023 samanborið við 4,7 milljarða ári áður. Hlutafé félagsins var aukið um 607 milljónir árið 2023 og um 444 milljónir árið 2022.

Stærsta eign félagsins er yfir 4 milljarða króna krafa á dótturfélagið Fljótabakki ehf. sem á m.a. hótelbygginguna sem hýsir rekstur Depla.

Fljótabakki á fleiri fasteignir og jarðir á norðurlandi. Árið 2019 greindi Morgunblaðið frá því að félagið hefði keypt jörðina Atlastaði í Svarfaðardal.