Eimskip tapaði 775 þúsund evra eftir skatta, eða sem nemur 110 milljónum króna, á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist flutningafélagið um 491 þúsund evra á sama tímabili í fyrra.

Lakari afkoma eftir skatta skýrist helst af auknum afskriftum og lækkun afkomu hlutdeildarfélaga, að því er segir í afkomutilkynningu sem Eimskip birti eftir lokun Kauphallarinnar.

Tekjur Eimskips á fyrsta fjórðungi jukust um 3,4% milli ára og námu 200 milljónum evra, eða um 28,5 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 7,7% milli ára og nam 15,3 milljónum evra eða um 2,2 milljörðum króna.

Eimskip segir að sjóðstreymi frá rekstri á fjórðunginum hafi verið sterkt en það nam um 16 milljónum evra. Til samanburðar var það 2,7 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi 2024.

„Sögulega hefur fyrsti ársfjórðungur verið sá tími árs sem minnst umsvif eru í starfsemi félagsins og í ár bættust við kostnaðarsamar truflanir í rekstri vegna óvenju slæms veðurs á Norður-Atlantshafi en þó var 6,6% magnaukning í siglingarkerfinu,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

„Hávær umræða hefur verið um nýja tollastefnu Bandaríkjanna og áhrif þeirra á fyrirtæki og hagkerfi heimsins. Þrátt fyrir óvissu sem þetta hefur skapað eru áhrifin á Eimskip enn sem komið er óveruleg.“

Vilhelm Már segir að heilt yfir séu stjórnendur Eimskips nokkuð bjartsýnir fyrir komandi mánuðum „enda sjáum við venjubundnar árstíðarsveiflur í rekstrinum okkar þar sem annar og þriðji fjórðungur eru að jafnaði þeir umsvifamestu í starfseminni”.

„Þá er sérstaða Eimskips á Norður-Atlantshafinu almennt þolnari gagnvart efnahagslegum sveiflum en hún byggir á heimamarkaði sem hefur á að skipa mjög inn- og útflutningsdrifnum hagkerfum sem treysta á sjóflutninga að megninu til og að sama skapi er áhersla félagsins í alþjóðlegu flutningsmiðlununni að þjónusta viðskiptavini í flutningum á ferskum og frosnum matvælum.“

Hann nefnir einnig að stjórnendur Eimskips telji varhugavert að eftir langt tímabil hárra vaxta og mikillar verðbólgu hér á landi sé nú verið að horfa til aukinnar skattbyrði á fyrirtæki og almenning.

Eins og önnur fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri hafi Eimskip ekki farið varhluta af þeim áskorunum sem fylgja reglugerðarkröfum og vaxandi óvissu í alþjóðaviðskiptum að sögn Vilhelms.