Iceland Seafood International (ISI) tapaði 730 þúsund evrum, eða um 109 milljónum króna, eftir skatta á fyrri árshelmingi. Til samanburðar tapaði félagið 15,3 milljónum evra á sama tímabili í fyrra sem litaðist mjög af bresku dótturfélagi sem var selt á síðasta ári. ISI birti uppgjör eftir lokun markaða í dag.

Sala samstæðunnar nam 212 milljónum evra, eða um 31,7 milljörðum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Salan á öðrum ársfjórðungi nam 98,2 milljónum evra, og dróst saman um 1% frá öðrum fjórðungi 2023.

Aðlöguð afkoma félagsins fyrir skatta (e. normalised pre-tax profit/loss, NPBT) á fyrri árshelmingi var jákvæð um 1,1 milljón evra. NPBT á öðrum ársfjórðungi var neikvæð um 0,7 milljónir evra, sem er um 1,1 milljón evra betra en á öðrum fjórðungi 2023. ISI áætlar að NPBT í ár verði ábilinu 5-7 milljónir evra.

Mynd tekin úr uppgjörskynningu ISI.

Ægir Páll Friðbertsson, forstjóri ISI, segir að áfram sé óvissa í rekstrarumhverfi félagsins og gera stjórnendur Iceland Seafood ráð fyrir að svo verði áfram. Hátt vaxtastig geri mörgum rekstraraðilum í iðnaðinum erfitt fyrir og almennt verði rekstraraðstæður krefjandi við viðvarandi verðbólgu.