Djús ehf., félag sem heldur utan um rekstur Lemon, tapaði 8,8 milljónum króna í fyrra samanborið við tap upp á eina milljón árið 2022.

Velta veitingafélagsins sem sérhæfir sig í samlokum og ferskum söfum jókst um 11% milli ára og nam 663 milljónum króna í fyrra. Í árslok 2023 voru 8 Lemon staðir og 11 Lemon Mini staðir.

Rekstrargjöld jukust um 12% og námu 670 milljónum. Þar af voru laun og tengd gjöld 312 milljónir króna. Ársverkum fækkaði úr 32 í 31 milli ára.

Eignir Djús námu 96 milljónum króna og eigið fé var um 17 milljónir í lok síðasta árs. Hagar, móðurfélag Bónus, Hagkaups og Olís, er stærsti hluthafi Djús með 49% hlut.