Fjarskipta- og fjölmiðlafélagið Sýn tapaði 153 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 213 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra. Sýn birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar.
Tekjur Sýnar á fyrsta fjórðungi jókst um 1,3% milli ára og nam 5.934 milljónum króna. Framlegð félagsins dróst hins vegar saman um 10,5% milli ára og nam 1.852 milljónum.
Sýn hafði sent frá sér afkomuviðvörun fyrir rúmum tveimur vikum þar sem fram kom að lækkun á farsímatekjum um 138 milljónir króna milli ára, þá sérstaklega IoT tekjum, ásamt hærri afskriftum sýningarrétta væri helsta skýringin fyrir lægri afkomu. Eins var afskrift sýningarrétta lægri árið 2023 vegna endursamninga við birgja.
Skili 380 milljóna sparnaði á ársgrundvelli
Rekstrarhagnaður (EBIT) Sýnar á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 119 milljónum samanborið við 428 milljónir árið áður.
„Rekstrarafkoma félagsins er ekki ásættanleg en hins vegar er gert ráð fyrir umtalsverðum rekstrarbata á síðari hluta ársins og á því næsta, eftir því sem skipulagsbreytingar ná fram að ganga,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, í afkomutilkynningu.
Hún segir að þær skipulagsbreytingar sem þegar hefur verið gripið til á þessu ári muni skila um 32 milljóna króna sparnaði á mánuði, eða um 380 milljónir króna á ársgrundvelli þegar áhrif þeirra verða að fullu komin fram.
Umræddar skipulagsbreytingar fólu í sér starfslok við framkvæmdastjóra, sameiningu deilda og stöðugildum var fækkað um 20 á tímabilinu.