Síminn tapaði 188 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2025, samanborið við 171 milljón króna hagnað á sama tímabili 2024. Leiðrétt fyrir 495 milljóna króna gjaldfærslu vegna dómsmála nam hagnaður fjórðungsins aftur á móti 307 milljónum. Tekjur félagsins jukust 7,2 milljörðum og jukust um 9,1% milli ára en tekjur af farsíma, gagnaflutningi og sjónvarpsþjónustu jukust um 2,3%.

Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Símans sem birt var í Kauphöllinni eftir lokun markaða í dag.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.272 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2025 og rekstrarhagnaður nam 189 milljónum. Leiðrétt fyrir áðurnefndri gjaldfærslu vegna dómsmála nam EBITDA fjórðungsins 1.732 milljónum (24,1%) og EBIT 649 milljónum (9,0%).

Vaxtaberandi skuldir samstæðunnar að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 18,9 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs, handbært fé nam 0,4 milljörðum. Staða útlána hjá Símanum Pay var 4,7 milljarðar. Hreinar vaxtaberandi skuldir / 12M EBITDA  í lok fjórðungsins var 1,82. Eiginfjárhlutfall var 40,1% og nam eigið fé 16,9 milljörðum króna.

„Fjórðungurinn einkenndist af traustum grunnrekstri, talsverðum tekjuauka af auglýsingamiðlun og áframhaldandi uppbyggingu fjártæknirekstrar þar sem viðskiptavinum fjölgar hratt, ekki síst á fyrirtækjamarkaði,“ segir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans.

Sjónvarp Símans Premium hafi sótt í sig veðrið þar sem áskrifendum fjölgaði um 10% milli ára og eru í dag 50 þúsund talsins. Dómur Hæstaréttar þar sem dómum héraðsdóms og Landsréttar í máli enska boltans var snúið við liti þó myndina en Síminn var dæmdur til greiðslu 400 milljóna króna sektar. Þá hafi niðurstöður þriggja lagadeilna til viðbótar kallað á gjaldfærslu upp á 60 milljónir auk þess sem 35 milljónir bvoru gjaldfærðar í dráttarvexti af greiðslum vegna dómsmála undir fjármagnsgjöldum.

„Lagaleg óvissa hefur minnkað til muna með lokum þessara mála,“ segir María Björk.

Auglýsingamiðlun sé þá orðin traust tekjustoð í rekstrinum þar sem auglýsingaskilti eru 41 talsins auk þess sem strætóskýli í rekstri félagsins hafa 620 skjái og fer fjölgandi. Félagið haldi síðan áfram að þróa og byggja upp fjártæknilausnir í fremstu röð, en 118 rekstraraðilar nota nú fyrirtækjakort Símans Pay og tæplega 150 þúsund skráðir notendur eru á Noona-appinu.

„Innleiðing nýrrar stefnu hefur verið ríkjandi áhersla í rekstrinum síðustu mánuði. Þrátt fyrir að við séum á fyrstu metrunum í því verkefni er árangurinn strax byrjaður að sýna sig og markverð fylgni er milli sívaxandi starfsánægju og vaxandi ánægju viðskiptavina, en báðir mælikvarðar eru mældir með formföstum og reglubundnum hætti innan Símans. Ég vil nota tækifærið og þakka samstarfsfólki mínu hjá Símanum fyrir þann metnað sem lagður hefur verið í stefnuvinnuna af öllum einingum fyrirtækisins. Það er ekki sjálfsagt að finna svona mikinn meðbyr í slíkri vegferð, á sama tíma og starfsfólk sinnir daglegum rekstri af elju og ávallt með hagsmuni viðskiptavina í fyrirrúmi,“ segir María Björk að lokum.